Samkvæmt könnun sem MasterCard greiddi fyrir, mun framlag Evrópumeistaramótsins í knattspyrnu á næsta ári inn í evrópskan efnahag verða allt að 1,4 milljarðar punda, eða sem svarar til allt að 128 milljarða ISK. Rannsóknin var gerð af Simon Chadwick, sem er talinn einn fremsti sérfræðingur á sviði viðskipta sem tengjast íþróttaviðburðum í heiminum. Skýrslan var birt um leið og greint var frá drætti í riðla úrslitakeppninnar í Luzern í Sviss. Niðurstöðurnar benda til þess að jákvæðra áhrifa verði vart á staðbundnum svæðum sem tengjast keppninni, en einnig á þjóðlega og alþjóðlega vísu. Tiltekið er að miðasala verði meiri en áður á EM og einnig ferðalög, sala á matvöru og drykkjum, ýmsum varningi sem tengist keppninni, tekjur frá stuðningsaðilum aukast sem og af auglýsingum og fjarskiptanotkun; og tekjur fjölmiðla muni stórlega aukast.

Nánar er fjallað um tekjur af knattleikjum í helgarblaði Viðskiptablaðsins.