Sérvitringurinn Walter Samasko lést í Carson City í Nevada í maí, en líkið fannst hins vegar ekki fyrr en í júní, þegar nágrannarnir fóru að kvarta undan lykt frá húsi hans. Samasko var með aðeins 200 dali á bankareikningi sínum, en þegar verið var að þrífa húsið hans kom í ljós að hann hafði safnað alls um 123 kílóum af gulli, sem hann geymdi í bílskúrnum og víðs vegar um húsið sjálft. Er gullið um 850 milljóna króna virði.

Bæði var um að ræða gullpeninga, þeir elstu frá árinu 1872, en einnig heilar gullstangir. Svo mikið var af gulli í húsinu að starfsmaður borgarinnar þurfti að nota hjólbörur til að flytja það út í vörubíl. Samasko átti enga nákomna ættingja og hafði ekki skrifað erfðaskrá. Frænka hans, Arlene Magdanz, sem býr í Kalíforníu, fær því gullið. Í frétt Las Vegas Sun er haft eftir lögmanni Magdanz að hún hafi síðast talað við Samasko fyrir um ári síðan og ekki haft hugmynd um að hann hafi verið að sanka að sér góðmálmum. Hún hafi engar ákvarðanir tekið um hvernig hún muni eyða arfinum.