Landsvirkjun hefur um tuttugu virkjanakosti til skoðunar um þessar mundir, en áformin eru mjög mislangt komin. Framkvæmdir við Þeistareykjavirkjun standa nú yfir. Áætlað að hún hefji framleiðslu á 45 megavöttum af raforku á haustmánuðum 2017, en bætt verður í framleiðsluna í 45 megavatta áföngum eftir því sem jarðvarminn á svæðinu leyfir. Stefnt er að því að hefja framkvæmdir við 100 megavatta stækkun Búrfellsvirkjunar á fyrri hluta þessa árs og að stækkunin verði tekin í notkun í apríl 2018.

Engar nýjar virkjanir eru á teikniborðinu hjá Orku náttúrunnar, dótturfélagi Orkuveitu Reykjavíkur. Hins vegar fyrirhugar HS Orka talsverða aukningu í orkuvinnslu, einkum á árunum 2018-2019. Vonir standa til þess að 10 megavatta virkjun í Tungufljóti í Biskupstungum ásamt 30 megavatta stækkun Reykjanesvirkjunar verði tilbúnar á þessum tveimur árum.

Fyrsti áfangi Þeistareykjavirkjunar, stækkun Búrfellsvirkjunar, Tungufljót og stækkun Reykjanesvirkjunar munu samtals skila um 185 megavöttum af raforku. Það jafngildir um 7% af uppsettu afli raforkuvera á Íslandi árið 2014, sem gera má ráð fyrir að bætist við framleiðslugetuna á næstu þremur til fjórum árum miðað við áform þriggja stærstu raforkuframleiðendanna.

Þarf að virkja meira

Ofangreind áform um uppbyggingu virkjana til ársins 2019 virðast ekki duga fyrir þeirri aukningu í eftirspurn eftir raforku sem er fyrirséð á næstu árum. Svo virðist sem virkja þurfi meira til að anna eftirspurn og þá vaknar sú spurning hvar á að virkja og hverjir ætla að gera það.

Stóru raforkuframleiðendurnir eru ekki þeir einu sem hugsa sér til hreyfings þessi misserin. Virkjanir undir 10 megavöttum falla ekki undir rammaáætlun og minni kvaðir eru um mat á umhverfisáhrifum slíkra virkjana. Fjárfesting í slíkum smávirkjunum kann að vera fýsileg fyrir hina ýmsu einkaaðila.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .