*

fimmtudagur, 21. janúar 2021
Innlent 22. nóvember 2020 14:12

Með 23 þúsund fermetra til sölu

Fjárfestingafélög í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur eru með ríflega 23 þúsund fermetra atvinnuhúsnæði auglýst til sölu.

Ingvar Haraldsson
Eldra húsnæði ÍSAM á Tunguhálsi er meðal þess sem auglýst er til sölu eða leigu.
Haraldur Guðjónsson

Fjárfestingafélög í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur eru með ríflega 23 þúsund fermetra atvinnuhúsnæði auglýst til sölu eða leigu. Samanlagt fasteignamat þeirra er um 4,6 milljarðar króna. Salan kemur til eftir að heildsalan ÍSAM flutti starfsemi sína á Korputorg árið 2019 og sölu félagsins á Odda og Kassagerð Reykjavíkur. Korputorg er einnig í eigu Guðbjargar. Lítil starfsemi hefur verið að undanförnu í nokkrum hluta húsnæðisins.

Sjá einnig: Eigið fé Fram 37 milljarðar

Eignirnar sem eru auglýstar til sölu eru því 9.500 fermetra prentsmiðja Odda og Kassagerðarinnar á Höfðabakka, húsnæði Myllunnar í Skeifunni sem og fyrra húsnæði ÍSAM og Kexverksmiðjunnar Frón á Tunguhálsi.

Þungur rekstur ÍSAM 

Rekstur ÍSAM, hefur verið þungur undanfarin ár. Kristinn ehf., í eigu Fram, fjárfestingafélags Guðbjargar, keypti ÍSAM árið 2014 og skilaði það hagnaði fyrstu þrjú árin eftir það. 

ÍSAM tapaði 741 milljón króna árið 2019 og tapaði samanlagt 1,5 milljörðum króna árin 2017 til 2019. Bókfært virði ÍSAM lækkar úr 3,4 milljörðum í 2,4 milljarða króna á milli áranna 2018 og 2019. 

Kristinn ehf. keypti Korputorg árið 2016, en það er alls 47 þúsund fermetrar. Fram metur Korputorg ehf., sem heldur utan um fasteignina á Korputorgi, á 5,5 milljarða króna. Meðal annarra eigna ÍSAM eru heildsalan Fastus og matvælaframleiðandinn ORA.

Þá hefur félagið verið aðaleigandi Prentsmiðjunnar Odda og Kassagerðar Reykjavíkur með 70% hlut en búið er að selja þann rekstur. Prentmet keypti Prentsmiðjuna Odda á síðasta ári. Samhentir keyptu Kassagerð Reykjavíkur í febrúar síðastliðnum.

Tap eignarhaldsfélagsins utan um rekstur Odda og Kassagerðina í fyrra nam 469 milljónum króna í fyrra og 838 milljónum árið 2018. Bókfært eigið fé félagsins var neikvætt um 564 milljónir króna um áramótin en af 2,2 milljarða skuldum félagsins var 643 milljóna króna lán frá Ísfélagi Vestmannaeyja, sem einnig er í eigu Fram ehf.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér