Horn fjárfestingarfélag var stofnað árið 2008 og starfar sem alhliða fjárfestingarfélag sem fjárfestir bæði í skráðum og óskráðum verðbréfum í flestum atvinnugreinum. Nú er félagið með um 24 milljarða í stýringu og segja framkvæmdastjórar þess, Steinar Helgason og Hermann Már Þórisson, að reksturinn hafi alla tíð gengið mjög vel.

Sala eigna gengið vel
„Rekstur Horns fjárfestingarfélags hefur gengið mjög vel allt frá stofnun félagsins árið 2008. Arðsemi félagsins hefur verið mjög góð, úrvinnsla og sala eigna hefur gengið vel sem hefur gert félaginu kleift að greiða verulegan arð til eiganda á undanförnum árum.“ Árið 2012 tóku Landsbréf yfir stýringu á eignasafni Horns og fluttust starfsmenn Horns í kjölfarið yfir til Landsbréfa. Steinar og Hermann segja sameininguna hafa gengið vel.

„Flestir starfsmenn Horns voru samhliða ráðnir til starfa hjá Landsbréfum og leiða þar teymi Sérhæfðra fjárfestinga hjá Landsbréfum sem meðal annars stýrir eignum Horns fjárfestingarfélags, Horns II slhf., ferðaþjónustusjóðsins Landsbréf ITF I auk annarra sjóða. Þegar Landsbréf tóku yfir stýringu eigna Horns voru helstu eignir félagsins tæplega helmings hlutur í Promens hf., eignarhlutur í Eyri Invest hf. og Stoðum hf. auk annarra smærri eignarhluta. Hluturinn í Promens er stærsta eign félagsins og síðastliðið haust var ákveðið að skrá Promens hf. á markað síðar á þessu ári. Töluvert hefur verið selt af eignum og í lok ársins 2013 var búið að endurskipuleggja félagið og minnka efnahagsreikning þess töluvert.“

Gjaldeyrishöftin erfið fyrir fyrirtækið
Steinar og Hermann taka í sama streng og flestir stjórnendur að gjaldeyrishöftin séu eitt það erfiðasta við starfsemi félagsins „Helstu hindranir á vegi fjárfestingarfélaga og -sjóða í dag eru gjaldeyrishöftin sem gera innlendum aðilum ómögulegt að fjárfesta utan Íslands. Það á jafnt við beinar nýjar fjárfestingar og fjárfestingar sem ætlað er að styðja við vöxt og framgang íslenskra fyrirtækja á erlendum vettvangi. Stjórnvöld þurfa að leggja ríka áherslu á afléttingu hafta sem allra fyrst þar sem núverandi ástand heldur aftur af vaxtarmöguleikum íslenskra fyrirtækja erlendis. Að auki skapar ástandið ójafnvægi milli fjárfesta þar sem erlendir aðilar – eða íslenskir sem eiga fé erlendis – geta fengið ríflegan afslátt af krónum með fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands, sem aftur getur haft talsverð áhrif á verðmyndum á innlendum markaði.“

Þarf að rýmka fjárfestingaheimildir sjóða
Afnám gjaldeyrishafta er ekki það eina sem ríkisstjórnin getur gert til að liðka fyrir starfsemi sjóðstýringafélaga á Íslandi að sögn Steinars og Hermanns. „Annað brýnt verkefni sem stjórnvöld þurfa að ráðast í, er rýmkun á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða og verðbréfa- og fjárfestingarsjóða á First North markaðinum. Með því væri hægt að auka viðskipti á þeim markaði og ýta undir áhuga fyrirtækja á skráningu. Við teljum þetta sérstaklega mikilvægt á Íslandi þar sem umsvif meginþorra íslenskra fyrirtækja eru of lítil til þess réttlætanlegt sé að skrá þau á aðalmarkað Kauphallarinnar. Skráning á First North myndi á henta mörgum efnilegum fyrirtækjum vel og hún gæti verið sá farvegur sem þarf – og er í reynd nauðsynlegur – til að fá nýtt fjármagn í íslenskt atvinnulíf og treysta undirstöður þess til frambúðar.“

Viðtal við þá Hermann og Steinar birtist í blaðinu 462 framúrskarandi fyrirtæki sem dreift var með Viðskiptablaðinu í gær. Þar er fjallað um þau fyrirtæki sem stóðust styrkleikamat Creditinfo og komust í hóp framúrskarandi fyrirtækja. Nálgast má blaðið með því að smella á hlekkinn Tölublöð .