*

miðvikudagur, 16. júní 2021
Innlent 24. maí 2018 14:32

Með 4.500 farþega til borgarinnar

Stærsta skemmtiferðaskip sem siglt hefur til Íslands kemur til Reykjavíkur á laugardag. 70 skip eru væntanleg í ár.

Ritstjórn
MSC Meraviglia er 171.598 brúttótonn að stærð, 315 metrar að lengd og 43 metrar að breidd.
Aðsend mynd

Stærsta skemmtiferðaskip sumarsins MSC Meraviglia kemur í sína fyrstu ferð til Reykjavíkur næstkomandi laugardag en alls koma 4.526 farþegar með skipinu. Jóhann Bogason, framkvæmdastjóri Gáru, dótturfélags TVG-Zimsen, sem sér um að þjónusta skipið á meðan það er í höfn á Íslandi en viðdvöl skipsins við Skarfabakka er um sólarhingur.

„Þetta er stærsta skemmtiferðaskip sem komið hefur til landsins,“ segir Jóhann. „Skipið siglir hingað til lands með 4.526 farþega og eru alls 1561 í áhöfn skipsins." MSC Meraviglia er í eigu MSC Cruises en skipið er mjög glæsilegt í alla staði. Það er 171.598 brúttótonn að stærð, 315 metrar að lengd og 43 metrar að breidd.

MSC Cruises er fyrsta fyrirtækið í skemmtiferðaskipaiðnaðinum sem hefur hlotið heiðursverðlaunin, 7 Gullperlur (7 Golden Pearls). Þessi verðlaun eru afhent þeim fyrirtækjum sem huga vel að loftlags-, sjávar- og úrgangsmálum, á ferðum sínum um heiminn segir í fréttatilkynningu.

Alls eru rúmlega 146.700 farþegar væntanlegir til Reykjavíkur með skemmtiferðaskipum á þessu ári og hafa þeir aldrei verið fleiri.
Þeir sigla hingað með 70 skemmtiferðaskipum sem munu hafa 165 viðkomur í Reykjavík. Á síðasta ári komu rúmlega 129 þúsund farþegar með skemmtiferðaskipum til höfuðborgarinnar.

„Áhugi skipaútgerða um allan heim á Íslandi heldur áfram og Ísland og Norðurslóðir hafa mikið aðdráttarafl,“ segir Jóhann.

„Fjöldi farþega sem hingað koma með skemmtiferðaskipum eykst á hverju ári og við leggjum gríðarlega áherslu á að skapa bæði farþegum og áhöfnum þægilegt umhverfi og framúrskarandi þjónustu. Það tekst okkur með því að setja okkur vinnuramma sem eru í stöðugri þróun enda leggjum við mikið upp úr gæðum og vönduðum vinnubrögðum.”