Tveir vogunarsjóðsstjórar í bandarískum vogunarsjóðum voru með 1,7 milljarð Bandaríkjadala í árslaun hver. Það eru rúmlega 205 milljarðar íslenskra króna. Sé það reiknað niður á hvern dag ársins fæst það út að þeir hafi verið með 568 milljónir í laun á dag. Um þetta er fjallað á vef Institutional Investor’s Alpha.

Kenneth Griffins hjá Citadel og James Simons hjá Renaissance Technologies voru með 1,7 milljarð dala á mann - og skipa sér þar með efst á raðir vogunarsjóðsstjóranna sem voru með allra hæstu launin á síðasta ári. Samtals voru þeir tíu sjóðsstjórar með hæstu launin með rúmlega 10 milljarða Bandaríkjadali í laun. Það eru um það bil 1.210 milljarðar íslenskra króna.

Á eftir þeim koma Raymond Dalio hjá Bridgewater Associates og David Tepper hjá Appaloosa Management, hvor með 1,4 milljarða dala eða 169 milljarða króna í laun fyrir árið. Í fimmta sætinu situr hann Israel Englander hjá Millennium Management, en hann var með 1,15 milljarða Bandaríkjadala eða 139 milljarða króna í laun.