Launagreiðslur til sextán lykilstjórnenda Alvogen á síðasta ári námu 13,6 milljónum dollara, jafnvirði um 1,7 milljarða króna miðað við meðalgengi síðasta árs samkvæmt ársreikningi móðurfélagsins Alvogen Lux Holdings.

Laun lykilstarfsmanna námu því að að jafnaði um 104 milljónum króna eða um 8,7 milljónum króna á mánuði og hækka meðallaun þeirra um 12% milli ára í dollurum talið.

Í ársreikningnum segir að þrenns konar kaupaukaáætlanir séu virkar hjá Alvogen. Þær miða að því að stjórnendur hafi kost á að eignast hlutafé í félaginu og fá bónusgreiðslur sem taka mið af því af afkomu félagsins (EBITDA), sem og öðrum mælikvörðum í rekstri.

Í tekjublaði Frjálsrar verslunar kom fram að útsvarsskyldar mánaðartekjur Róberts Wessman, forstjóra Alvogen, hafi numið 23,4 milljónum króna árið 2018, ári og nokkrir næstráðendur hans í félaginu hafi verið með um 5 til 6 milljónir á mánuði í útsvarsskyldar tekjur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .