Íslenskur bás verður á alþjóðlegu ferðasýningunni í Peking, Beijing International Travel Expo 2011, sem hefst á morgun. Mikill áhugi er á Íslandi í Kína sem sést á því að 2,3 milljónir manna heimsóttu íslenska básinn á heimssýningunni þar í landi í fyrra og hefur sá áhugi síst dvínað í kjölfar eldgosa síðustu missera.

Í fréttatilkynningu frá Utanríkisráðuneytinu segir að aðstandendur íslenska bássins séu auk sendiráðsins í Peking, Icelandair, Fosshótel og Íslandsstofa. Auk þessara aðila standa Reykjavíkurborg, Allrahanda og Guðmundur Tyrfingsson hf. að útgáfu sérstaks kynningarbæklings um Ísland.

„Samkvæmt tölum frá Ferðamálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNWTO) fjölgar stöðugt þeim Kínverjum sem ferðast erlendis. Rúmlega 57 milljónir Kínverja fóru til útlanda í fyrra sem er um tuttugu prósent aukning á milli ára. Kínverjar eru í dag í fjórða sæti þjóða á heimsvísu hvað varðar fjölda ferðamanna sem fara út fyrir landsteinana. Vinsælustu viðkomustaðir þeirra utan Asíu og Eyjaálfu eru Bandaríkin og Frakkland. Kínversku ferðamálasamtökin (CTA) segja að kínverskir ferðamenn hafi verslað erlendis fyrir andvirði 48 milljarða bandaríkjadala í fyrra  sem er 15 prósentum meira en árið áður.

Á síðasta ári höfðu 5194 kínverskir ferðamenn viðdvöl á Íslandi skv. komutalningum á Leifsstöð . Markmið samstarfsaðila í ferðaþjónustu og sendiráðs Íslands í Peking er að Ísland verði í auknum mæli spennandi áfangastaður fyrir kínverska ferðamenn á framandi slóðum. Af þessu tilefni verður ferðamálasíða Íslandsstofu, www.visiticeland.com, aðgengileg á kínversku innan skamms,“ segir í tilkynningunni.