Freyja Leópoldsdóttir tók nýverið við stöðu markaðsstjóra Bílaumboðsins Öskju. Hún hefur starfað í markaðsdeild Öskju sl. þrjú ár en tók nýlega við sem markaðsstjóri fyrirtækisins. Hún lærði markaðsfræði og alþjóðaviðskipti í Business Academy Southwest í Danmörku. „Ég er með markaðsmál í blóðinu,“ segir hún og brosir. „Faðir minn, Leópold Sveinsson, hefur starfað í auglýsinga- og markaðsgeiranum í fjöldamörg ár þannig að það er ekki langt að sækja þetta.“

Freyja er mikil áhugamanneskja um bíla og mótorhjól. Hún keppti m.a. í mótókrossi í nokkur ár. „Ég er með mótorhjólapróf og á Triumph Tiger hjól sem ég djöflast á þegar tími gefst. Ég hef einnig haft mikinn áhuga á bílum síðan ég man eftir mér. Ég er alin upp á bílasölurúntinum þannig að ég hlýt að vera í réttum bransa,“ segir hún brosandi og bætir við að afi hennar og föðurbróðir hafi báðir rekið bílasölur.