Símon Þór Jónsson hóf störf hjá skattasviði Ernst & Young (EY) árið 2016 og var þá annar tveggja starfsmanna sviðsins. Í dag eru þeir orðnir fjórir, sviðið orðið skata- og lögfræðisvið, og Símon orðinn sviðsstjóri.

„Við höfum verið að vaxa töluvert undanfarin ár, það hefur verið stöðugur vöxtur á öllum sviðum, við erum náttúrulega að hluta til stoðsvið þannig að við erum að þjónusta þau fyrirtæki sem eru í endurskoðun, og þau verkefni sem eru í ráðgjöf líka. Við sjáum fram á áframhaldandi vöxt þar á meðan það er almennur vöxtur í efnahagslífinu,“ sagði Símon.

Hann segir þó uppgang sviðsins fyrst og fremst tvíþættan. Annars vegar í alþjóðlegri starfsemi, en áhugi erlendra fjárfesta á Íslandi sé mikill um þessar mundir. „Við höfum á mínu sviði kannski verið að gera meira úr þessari erlendu starfsemi sem við höfum verið með. Sá hluti viðskiptanna hjá okkur er kannski að vaxa hraðar, og við sjáum fram á að hann geti enn vaxið hraðar.“

Hins vegar tók sviðið nýlega að sér almenna lögfræðiþjónustu fyrir viðskiptalífið, en á síðasta ári var það samþykkt sem lögfræðisvið af alþjóðlegum höfuðstöðvum EY, og breyttist þá nafnið úr skattasvið í skatta- og lögfræðisvið.

Símon lauk Cand.juris. prófi frá Lagadeild Háskóla Íslands árið 1996 og lauk svo diplómanámi í hagfræði við HÍ samhliða starfi hjá Ríkisskattstjóra árið 2002. Hann hóf störf hjá KPMG árið 2003 þar sem hann var forstöðumaður skattasviðs, og meðan hann var þar lauk hann námskeiði í alþjóðlegum skattarétti við University of Leiden í Hollandi. Árið 2011 fór hann til Deloitte og var seinna gerður meðeigandi. Þar var hann til 2016, en þá hóf hann störf hjá EY og er þar einnig meðeigandi.

Símon er hvergi nærri hættur að stunda nám með vinnu, en frá því að hann hóf störf hjá EY hefur hann verið í fjarnámi við University of London, hvaðan hann mun útskrifast með meistaragráðu (LL.M.) í alþjóðlegum viðskiptarétti.

Utan vinnu hefur Símon gaman af langhlaupi og sundi. Hann hefur þó ekki ýkja mikinn frítíma þessa dagana milli vinnunnar, námsins og fjölskyldunnar, en hann og kona hans, Drífa Magnúsdóttir, eiga fjóra syni. Sá yngsti er 6 ára og sá elsti 23, og Símon segir stoltur frá því að í fyrra hafi hann átt strák á öllum fjórum skólastigunum.