„Ég byrjaði árið 2004 hjá BL og sá þá um afhendingar á strætisvögnum fyrir Strætó BS. Þetta voru stærstu kaup Strætós í langan tíma þar sem verið var að endurnýja stóran hluta af strætisvagnaflotanum. Þegar þessi stóra sala fór í gegn þá þurfti að auka við í söludeild atvinnubíla hjá BL og ég kom þá inn. Ég var hjá BL þar til í efnahagshruninu. Þá dróst öll bílasala saman eins og alþjóð veit og ekki síst í atvinnubílum enda höfðu íslensk fyrirtæki ekki bolmagn eða öryggi til að kaupa bíla á þeim tíma. Ég hætti þá störfum hjá BL árið 2009 í þessum mikla samdrætti sem varð á þessum erfiða tíma,“ segir Sveinn Mikael Sveinsson, sölu- og þjónustustjóri hjá BL.

„Ég hef alltaf viljað vinna á fyrirtækjamarkaði því ég hef gaman af þessum suðupotti sem fyrirtækjarekstur er. Ég réð mig í vinnu sem framkvæmdastjóri Vélaborgar. Ég ákvað síðan að koma aftur í bílageirann þegar tækifærið bauðst. Það má segja að ég sé með dellu fyrir stórum bílum,“ segir Sveinn.

Nánar er fjallað um málið í blaðinu Atvinnubílar, sem fylgdi Viðskiptablaðinu í síðustu viku. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér.