Næsta umferð viðskiptahraðalsins Startup Tourism, sem haldinn er árlega, hefst 14. janúar næstkomandi, en hætt var að taka við umsóknum síðastliðinn mánudag. Edda Konráðsdóttir, verkefnastjóri hjá Icelandic Startups, sem sér um hraðalinn, segir markmiðið vera að veita viðskiptahugmyndum faglega undirstöðu og hraða ferlinu frá því að hugmynd kviknar og þar til viðskiptin taka að blómstra.

Hraðallinn í janúar verður sá fjórði sem er haldinn. Tíu fyrirtæki verða valin úr hópi umsækjenda og munu þá fá leiðsögn og þjálfun yfir 10 vikna tímabil, auk skrifstofuaðstöðu í húsi íslenska ferðaklasans.

Fyrirlestrar, ráðgjöf og tengslanet
„Við erum með fyrirlestraraðir, svokallaða Mentor-fundi, sem felast í því að um 70 sérfræðingar koma hingað inn í hraðalinn og taka fundi með fyrirtækjunum sem komast inn. Á þessum fundum fá þátttakendur ráðgjöf frá frumkvöðlum, fjárfestum og öðrum lykilaðilum innan ferðaþjónustunnar, í þeim tilgangi að hraða þróun hugmyndarinnar eða fyrirtækisins.“

Auk leiðbeiningar og ráðgjafar felst hluti af virði hraðalsins í að efla tengslanet þátttakenda „Það er rosalega mikið tengslanet sem fólk fær útúr þessum Mentor-fundum. Þar er fólk úr atvinnulífinu sem kemur hér inn til að hjálpa og gefur tíma sinn. Auk þess erum við með samhristinga fyrir þátttakendur, sem tengjast allir á ákveðinn hátt, þrátt fyrir að vera að gera mismunandi hluti og vera komin mislangt á veg.“

Fjármagnað af bakhjörlum
Hraðallinn er þátttakendum að kostnaðarlausu, en hann er fjármagnaður af bakhjörlum félagsins: Isavia, Íslandsbanka, Bláa lóninu og Vodafone. Icelandic Startups og íslenski ferðaklasinn sjá svo um framkvæmd hraðalsins. „Við erum óhagnaðardrifið félag í einkaeigu þannig að við fjármögnum okkur með styrkjum úr atvinnulífinu, til þess að geta boðið þjónustu okkar endurgjaldslaust til frumkvöðla, enda hafa þeir oft ekki mikið á milli handanna.“

Ferlið er einnig skipulagt þannig að þátttakendur geti haldið áfram sínum daglegu störfum samhliða. „Við náttúrulega stillum hraðlinum upp með það í huga að það sé fólk sem er í fullri vinnu eða námi sem er að taka þátt. Þetta er hugsað út frá því að fólk sé að gera eitthvað annað, sé að reka ferðaþjónustufyrirtæki samhliða.“

Þótt starfsemin fari fram í Reykjavík segir Edda mikla áherslu lagða á að fá þátttakendur sem víðast að. „Við erum með fyrirtæki alls staðar að af landinu. Markmiðið með þessu verkefni er að dreifa ferðaþjónustunni um allt land, til að stuðla að dreifingu ferðamanna um allt land og allan ársins hring, ekki bara á þessa vinsælustu staði yfir hásumarið. Þannig að við erum að horfa á framtíð ferðaþjónustunnar, að byggja hana upp. Þegar þátttakendur koma frá öðrum landshluta eru þeir þá minna hér og taka meira þátt í gegnum fjarfundi og þess háttar og koma síðan hingað kannski í lotur.“

Hugmyndir á ólíkum stigum
Edda segir að ekki sé einblínt sérstaklega á byltingarkenndar hugmyndir og nefnir dæmi um að í síðustu umferð hafi verið fyrirtæki sem hafa verið í rekstri í þónokkurn tíma. „Við erum að óska eftir allskyns viðskiptahugmyndum sem eru innan ferðaþjónustunnar. Það getur verið tæknilausn, afþreying eða bara hverskyns hugmynd eða fyrirtæki sem er að auka afþreyingarmöguleika í ferðaþjónustunni og styrkja innviði greinarinnar.“

Hraðallinn fær þó einnig sinn skerf af framsæknum viðskiptahugmyndum sem enn eru á frumstigi. Edda tekur Maríu nokkra Pálsdóttur sem dæmi um það. „Hún er með hæli sem er semsagt setur um sögu berklanna. Hún fór í gegnum hraðalinn árið 2017 með hugmynd að setri sem fangar sögu berklanna á Íslandi, sem sett yrði upp í Kristnesi. Síðan hún tók þátt er hún búin að opna þar kaffihús og er á leiðinni að opna sýninguna. Í gegnum hraðalinn hjá okkur vann hún að mótun og útfærslu viðskiptahugmyndarinnar, á meðan aðrir sem voru nú þegar í rekstri voru að skoða nýjungar í rekstrinum hjá sér.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .