Þau Heiðrún Jónsdóttir og Helgi Magnússon könnuðu stöðu sína ítarlega áður en þau tóku sæti í stjórn Skipta, móðurfélagi Símans og tengdra fyrirtækja, eftir áramótin síðustu. Þau voru kosin í stjórn á hluthafafundi félagsins í síðustu viku. Heiðrún er formaður stjórnar Gildis lífeyrissjóðs en Helgi er varaformaður stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna.

Vakin hefur verið athygli á stjórnarsetu þeirra stjórn Skipta enda um eftirlitsskyldan aðila að ræða. Skipti er eftirlitsskyldur að því leyti að Síminn innheimtir eigin reikninga. Þá er hnykkt frekar á þessu í lögum um starfemi lífeyrissjóða og samþykktum Gildis.

Þau Helgi og Heiðrún segjast bæði hafa kannað málið ítarlega hvort stjórnarseta þeirra stangist á við lög. Þau gerðu það í janúar þegar þau settust í stjórn Skipta og aftur um síðustu helgi en þá leituðu þau álita tveggja lögfræðistofa um málið. Niðurstaðan var í báðum tilvikum sú sama. Þótt Síminn, dótturfélag Skipta, sinni innheimtustarfsemi þá eigi ákvæðið um bann við setu einstaklinga í stjórn tveggja eftirlitsskyldra aðila við um fyrirtæki á fjármálamarkaði.

Fjármálaeftirlitið segir jafnframt í svari við  fyrirspurn Viðskiptablaðsins um það ekki gera athugasemd við að stjórnarmenn í lífeyrissjóðum sitji í stjórnum innheimtuaðila.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublað hér að ofan undir liðnum tölublöð.