Kennarar í ríkisreknum framhaldsskólum og Tækniskólanum felldu fyrir skömmu samning um nýtt vinnumat. Vinnumatið var hluti af kjarasamningi sem gerður var fyrir tæpu ári síðan eftir að kennarar höfðu verið í þriggja vikna verkfalli. Kjarasamningurinn átti að  gilda til loka október á næsta ári en nú eru þeir lausir. Alls eru því ríflega 1.600 framhaldsskólakennarar án kjarasamnings. Tveir skólar samþykktu hins vegar vinnumatið en það voru Verzlunarskóli Íslands og Menntaskóli Borgarfjarðar.

Fyrir skömmu kom út skýrsla sem ber heitið "Í aðdraganda kjarasamninga". Skýrslan er samvinnuverkefni nokkurra heildarsamtaka launafólks eða ASÍ, BHM, BSRB, KÍ. Að gerð skýrslunnar koma líka vinnuveitendur eða SA, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og fjármála- og efnahagsráðuneytið.

14,6% hækkun

Í þessari skýrslu kemur fram að þegar litið er á launahækkanir allra heildarsamtakanna frá 2013 til 2014 hækkaði hreint tímakaup framhaldsskólakennara mest eða um 14,6%. Hreint tímakaup ríkisstarfsmanna innan BSRB hækkaði minnst eða um 4,9%. Hreint tímakaup eru laun fyrir dagvinnu á hverja greidda klukkustund, án bónusa og álagsgreiðslna.

Þrátt fyrir að laun kennara hafi hækkað umtalsvert á síðasta ári er  uppsöfnuð hækkun frá árinu 2006 lægri en hækkun ríkisstarfsmanna í stéttarfélögum innan ASÍ. Laun félagsmanna í KÍ hafa hækkað um 68 til 69% á síðustu níu árum, sem er reyndar nokkuð umfram launavísitölu. Þess ber þó að geta að á árunum 2011 til 2013 voru laun félagsmanna KÍ undir launavísitölunni en það breyttist með kjarasamningunum sem gerðir voru í fyrra.

Einnig kemur fram í skýrslunni hver launadreifingin var hjá starfsmönnum allra heildarsamtakanna í september síðastliðnum.  Þá kemur í ljós að regluleg heildarlaun framhaldsskólakennara voru að meðaltali hæst, eða 605 þúsund í mánuðinum. Tekið er fram í skýrslunni að þetta gefi ekki vísbendingu um meðalmánaðarlaun kennara, þar sem kennarar fái eingöngu greidda yfirvinnu þá mánuði sem skólar starfi. Næst á eftir framhaldsskólakennurum voru ríkisstarfsmenn í BHM með 590 þúsund. Að meðaltali voru regluleg heildarlaun starfsmanna ríkisins 516 þúsund í september (eru þá teknir saman starfsmenn innan ASÍ, BHM, BSRB og KÍ).

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .