Fyrirtækið Klang Games þróar tölvuleikinn Seed þar sem spilarar byggja upp samfélag á plánetunni Trappist. Meðal verkefna spilaranna er að byggja upp þjóðfélagsskipan; setja stjórnarskrá, lög og reglur. Til þess að aðstoða við að hanna umgjörðina fékk fyrirtækið til liðs við sig Lawrence Lessig prófessor í lögum og leiðtogafræðum við Harvard háskóla.

„Ég hitti Lawrence í mat þegar hann var á Íslandi. Hann var á Íslandi til þess að fylgjast með ferlinu við gerð nýrrar stjórnarskrár og innleiðingu hennar. Það var svo auðvitað mjög sorglegt að henni var aldrei fylgt eftir og í raun stöðvuð. Við byrjuðum að spjalla um leikinn og hvernig pólitíkin í leiknum ætti að vera. Hann hefur verið virkur þátttakandi í lagaumgjörðinni á netinu. Hann var á bakvið Creative Commons og er góður vinur Edward Snowden og stofnanda Reddit,“ segir Guðmundur Hallgrímsson, framkvæmdastjóri Klang Games, eða Mundi vondi eins og hann er kallaður. Fljótlega var ákveðið að Lawrence myndi formlega koma að þróunarferlinu.

„Lawrence hafði mikinn áhuga á því hvernig stjórnkerfið í leiknum ætti að vera og leist mjög vel á það hvernig við vorum að hugsa leikinn. Hann langaði að taka þátt í því að móta stjórnkerfið með okkur. Við tókum auðvitað vel í það og í kjölfarið kom hann til Berlínar og vann með okkur lengi vel við að smíða verkfæri inn í leiknum sem gera fólki kleift að búa til sína eigin stjórnarskrá, lög og reglur fyrir sínar þjóðir í leiknum,“ segir Mundi.

Lawrence Lessig var einnig frambjóðandi í forvali Demókrataflokksins til forseta fyrir síðustu kosningar. Honum tókst nokkuð vel upp með söfnun styrkja og náði að safna milljón dollurum þótt hann hafi ekki sigrað í forvalinu.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Keppinautar Björgólfs Thors í Chile stefna félagi hans
  • Metvöxtur var í veltu lækningavörufyrirtækisins Nox Medical í fyrra
  • Móðurfélag Norðuráls er sagt hafa átt mestan þátt í verndartollum Donalds Trump
  • Umfjöllun um streymisveituna Spotify
  • True Grit hjól fyrirtækisins Laufs fékk hæstu einkunn sem gefin hefur verið
  • Tíu félög í ferðaþjónustu eru með helming veltunnar
  • Fjallað er um framtak Kínverja um „belti og braut“, sem er risaverkefni aldarinnar
  • Ítarlegt viðtal við Má Guðmundsson seðlabankastjóra
  • Stangveiðitímabilið er formlega hafið og byrjaði með hvelli í Tungulæk
  • Nýsköpunarfyrirtækið Fibra byggir óbrennanleg hús
  • Viðtal við Guðrúnu Tinnu Ólafsdóttur, nýjan rekstrarstjóra verslunarsviðs Fríhafnarinnar
  • Óðinn er á sínum stað og fjallar um vald og áhættuna af samþjöppun þess
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs sem fjallar kosningar í aðsigi