Í lok síðasta árs tók stjórn Norðurturnsins við Smáralind ákvörðun um að Íslandsbanka mætti setja merki sitt á turninn. Ekkert annað fyrirtæki hefur fengið heimild til slíks. Hugbúnaðarfyrirtækið LS Retail hefur stefnt Norðurturninum hf. en fyrirtækið leigir efstu hæðina og var fyrsta fyrirtækið til að flytja starfsemi sína í húsið.

Í Morgunblaðinu í dag er fjallað um málið og virðist sem nokkur harka sé komin í það því sáttaumleitanir hafa engan árangur borið. Í samtali við Morgunblaðið segir Sigrún Dóra Sævinsdóttir, rekstrarstjóri LS Retail, að Íslandsbanki, sem eigi stóran hlut í turninum og sé stærsti lánveitandinn hafi ekki fallist á sáttatillögur. Hún segir að Íslandsbanki virðist vera „með algjört hreðjatak á Norðurturninum".

Sigrún Dóra segir LS Retail hafi fyrst lagt til að merki allra fyrirtækjanna yrðu báðum megin á turninum en Íslandsbankamerkið efst, þrátt fyrir að bankinn væri á neðstu hæðunum. Síðan hafi fyrirtækið lagt til að merki Íslandsbanka yrði bara öðrum megin á turninum en hinum megin merki allra hinna fyrirtækjanna. Þessu hafi verið hafnað með rökunum „af því bara".

„Þess væri óskandi að fjármálafyrirtæki sem segist vera samfélagslega ábyrgt sýndi betra andlit og sáttahug. Þetta er kjánalegt merki um valdníðslu, frekju og yfirgang," segir Sigrún Dóra í samtali við Morgunblaðið.