Sigurður Viðarsson, forstjóri tryggingafélagsins TM, sem nýlega hætti að nota fyrrum nafn sitt, Tryggingamiðstöðin, segir að félagið hyggist bjóða innlán þegar viðskiptabankaleyfi Lykils verði í höfn að því er Fréttablaðið greinir frá.

„Við höfum áhuga á að koma á fót banka sem skorar stóru bankana á hólm,“ segir Sigurður.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrir mánuði síðan keypti TM bílafjármögnunina Lykil á tæpa 9,3 milljarða króna í það minnsta, en sú fjárhæð gæti farið í 9,9 milljarða því til viðbótar kemur hagnaður ársins í ár sem gæti numið 600 milljónum.

Með kaupunum nærri tvöfaldast efnahagsreikningur TM að sögn Sigurðar, sem telur það verða ærið verkefni a sameina félögin, en það dragi úr áhættu því lánasafn Lykils sé gott.

Ástæðan fyrir kaupunum er að sögn Sigurðar að lægri iðgjöld muni fylgja aukinni sjálfvirknivæðingu, þar á meðal sjálfkeyrandi bíla, vegna minni tjóna, og því hafi fyrirtækið viljað fleiri stoðir undir reksturinn. Vonast hann til að viðskiptabankaleyfi Lykils verði í höfn í sumar. „

„Ég hef ekki áhuga á að stofna alhliða banka heldur munum við finna okkar syllu á markaðnum,“ segir Sigurður.

„Sá banki væri ekki með þunglamalega yfirbyggingu eða fortíðarvanda á borð við gömul tölvukerfi, eins og stóru bankarnir þrír. Það er lúxus að geta byrjað frá grunni.“

Sigurður segi mörkin milli banka, trygginga og lífeyrissjóða verða sífellt óskýrari. „Af þeim sökum höfum við skoðað hvort hyggilegt væri að reka séreignasjóði, eignastýringu eða leggja stund á fjármögnunarstarfsemi.

„TM hefur í áratugi stundað fjármögnunarstarfsemi þótt umsvifin hafi verið lítil. Við höfum einungis boðið upp á hefðbundið veðlán en ekki lánasamninga eða leigusamninga.“