Njörður Árnason og Helgi Einarsson stofnuðu fyrirtækið Fugla árið 1998 þegar þeir unnu saman að hönnun tölvukerfis fyrir lífeyrissjóði í Íslandsbanka. Njörður var þá nýútskrifaður úr háskóla, en Helgi hafði töluverða reynslu í hugbúnaðargeiranum. „Við vorum þarna sem verktakar að vinna fyrir Almenna lífeyrissjóðinn, sem þá var hjá Íslandsbanka.

Hjá Íslandsbanka á þessum tíma var hefð fyrir því að skýra tölvukerfi fuglaheitum og ákváðum við því að skýra fyrirtækið okkar Fugla,“ segir Helgi. Njörður og Helgi eiga fyrirtækið ásamt þremur öðrum starfsmönnum og einum utanaðkomandi fjárfesti.

Um helmingur viðskipta Fugla kemur frá lífeyrissjóðum. „Við eigum, ásamt öðrum, kerfið Kríu. Það er notað af lífeyrissjóðum við að afgreiða iðgjaldagreiðslur og reikna út lífeyrisréttindi sjóðsfélaga hjá viðkomandi sjóði, sem og séreignarsparnað. Segja má að guðfaðir kerfisins sé Gunnar Baldvinsson, sem þá var og er enn hjá Almenna lífeyrissjóðnum, en það var hann sem fékk okkur til að skrifa kerfið fyrir sig,“ segir Helgi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .