*

fimmtudagur, 28. maí 2020
Innlent 10. apríl 2020 10:25

Með nærri 5 milljónir á mánuði

Meðaltekjur forstjóra í Kauphöllinni voru rúmlega sjöföld miðgildislaun landsmanna, en lækkuðu lítillega á síðasta ári.

Ritstjórn
Hér sjást forstjórar félaganna sem voru skráð í Kauphöll Íslands árið 2018, en síðan þá hafa bæði nokkur félög bæst við og verið skipt um menn í brúnni í mörgum tilfellum.
Haraldur Guðjónsson

Meðaltekjur forstjóranna 20 sem stýra kauphallarfélögunum 20 á síðasta ári námu 4,7 milljónum króna á síðasta ári, sem er sama upphæð og árið 2017, og hafa þau því staðið nokkurn veginn í stað síðustu þrjú árin að því er Kjarninn greinir frá.

Eins og fram kom í Tekjublaði Frjálsrar verslunar á síðasta ári hafa þó tekjuhæstu topparnir á landinu verið að hækka í launum, en athyglisvert er að bera laun forstjóranna í dag við tekjuhæstu forstjóranna 2017.

Miðgildi heildarlauna á Íslandi var aftur á móti 632 þúsund krónur árið 2018, svo meðallaun forstjóranna á síðasta ári voru næstum 7,5 sinnum hærri en það sem meðalmaðurinn var með þá. Það er þó töluvert minni munur en munur launa forstjóra í félögum í FTSE 100 vísitölunni og starfsmanna þeirra sem Viðskiptablaðið hefur fjallað um.

Árni Oddur Þórðarson forstjóri Marel, langverðmætasta félagsins í Kauphöllinni, var jafnframt með langhæstu mánaðartekjurnar, eða 12,3 milljónir króna á síðasta ári, sem var hækkun um 2,5 milljónir á mánuði frá árinu áður.

Í öðru sæti voru forstjórar smásöluverslunarkeðjanna og voru bæði Finnur Árnason í Högum og, eins og Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um, Eggert Þór Kristófersson, í Festi, með 6,1 milljón á mánuði.

Lægst launaður var síðan Guðbrandur Sigurðsson forstjóri Heimavalla, en hann var með 2,9 milljónir á mánuði áður en hann lét af starfi fyrir rétt rúmu ári síðan, en arftaki hans, Arnar Gauti Reynisson var með sömu mánaðarlaun.

Viðskiptablaðið hefur jafnframt fjallað ítarlega um tilraunir til að taka Heimavelli aftur af markaði eftir skráningu 24. maí 2018, og nú yfirtökutilboð norsks íbúðaleigufélags sem hyggst nú taka félagið af markaði.