Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, fullyrti í ræðu sinni á haustfundi miðstjórnar flokksins á Akureyri að útsendarar slitabúanna hefðu njósnað um sig.

„Ég veit að það var brotist inn í tölvuna mína. Þeir eltu mig til útlanda,“ sagði Sigmundur Davíð á fundinum, þar sem hann varpaði meðal annars upp glærum með myndum af forsvarsmönnum stóru vogunarsjóðanna eins og til dæmis George Soros.
Sigmundur Davíð sagði að þegar hann hefði verið á Íslendingaslóðum í Norður-Dakóta í Bandaríkjunum hafi hann fengið skilaboð frá ónefndum manni, sem hafi viljað funda með honum í bjálkakofa. Vildi þessi maður ræða slitabúin og hvernig hægt væri að leysa vandann sem tengdust þeim.

Í ræðu sinni fór Sigmundur Davíð einnig yfir hugsanleg kosningamál Framsóknarflokksins. Sagðist hann vilja byggja nýjan Landspítala, stórátak í samgöngum og rétta hlut eldri borgara.