Sigurður Viðarsson forstjóri Tryggingamiðstöðvarinnar segir með ólíkindum að færa hafi þurft eignir fjárfestingarsjóðsins Gamma Novus niður í nánast ekki neitt, úr genginu 183 í 2, sem þýði bókfært tap upp á um 300 milljónir þó peningalegt sé það um 130 milljónir síðan fjárfest var í sjóðnum.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur niðurfærsla sjóðsins fært niður eignir bæði Sjóvá, eða um 155 milljónir og rúmlega 300 milljónir króna hjá TM, en viðsnúningur síðarnefnda félagsins er í heildina allt að 490 milljónir .

Sjóðurinn, sem er annar tveggja sem Kvika banki segir að hafi komið í ljós að væru minna virði en talið var áður í tengslum við sameiningu við annað dótturfélag sitt, Júpiter, var fagfjárfestingasjóður um nýbyggingar.

Átti sjóðurinn í fasteignafélaginu Upphaf, sem hefur samkvæmt heimasíðu sinni það markmið að byggja næstu árin allt að 200 til 250 hagkvæmar íbíður á ári, sem ætlaðar eru litlum og meðalstórum fjölskyldum, ýmist til útleigu eða sölu.

Meðal verkefna sem talin eru upp á síðu félagsins eru 32 íbúðir á Vefarastræti 40-44 sem sagðar eru fara í sölu í apríl á þessu ári, 40 íbúðir í Bjarkarholti 7-9 auk verslunar á jarðhæð, 24 íbúðir í Holtsvegi 2-6 og sala er þar sögð hafin auk 36 íbúðir í Bjarkarholti 11-29 en alls 105 íbúðir í öllum þremur áföngunum.

„Þetta er bein afleiðing af því að við áttum í öðrum fasteignasjóðnum sem verið var að færa niður. Sjóðurinn sem við áttum í var færður niður í nánast ekki neitt, gengið var 183 um mitt ár en er núna komið í 2 og afskrifuðum við um leið alla eign okkar í sjóðnum, Gamma Novus,“ segir Sigurður.

„Við erum að afskrifa rúmlega 300 milljónir út af þessum sjóði, sem var í innlendum íbúðafjárfestingum. Það er með ólíkindum að menn hafi klúðrað þessu, en ég fæ bara þessar fréttir í símtali í gær. Eins og þetta var kynnt fyrir mér eru þarna margir samverkandi þættir á bakvið bæði kostnaðarhækkanir þar sem byggingarkostnaðurinn var miklu hærri en menn ætlu sér og svo tekur lengri tíma að selja. Loks eru verkefnin ekki komin jafnlangt og menn héldu.“

Sigurður segir að tapið sé þó minna ef horft er til hækkana á fasteignaverði og á genginu síðan tryggingaélagið fjárfesti í sjóðnum. „Við fjárfestum 200 milljónir í þessum sjóði árið 2013 og svo var greitt úr húnum árið 2017 um 70 milljónir svo peningalegt tap okkar er um 130 milljónir.“