Bygging Kárahnjúkavirkjunar og álvers Alcoa á Reyðarfirði var afar umdeild. Framkvæmdunum var harðlega mótmælt og beittu mótmælendur ýmsum ráðum til að koma skoðun sinni á framfæri. Mótmælendum tókst að stöðva vinnu um tíma með því að klifra upp í byggingakrana, hlekkja sig við vinnuvélar og þá var grænu skyri skvett á ráðstefnugesti álráðstefnu í Reykjavík. „Það var öryggisvörður fyrir utan heimili mitt í fimm sumur. Það var ráðist á hús, bíla og ýmislegt,“ segir Tómas Már Sigurðsson, aðstoðarforstjóri Alcoa, en hann var forstjóri Fjarðaáls, dótturfélags Alcoa, á meðan byggingu álversins stóð.

„Innan um friðsæla mótmælendur leyndust víst nokkrir róttækir erlendir aðgerðarsinnar og þótti ástæða til að hafa allan varann á. Þeir voru taldir óútreiknanlegir og þess vegna voru þessar ráðstafanir gerðar. Ég er fjölskyldumaður, með fjögur börn og okkur var einfaldlega ráðlagt að hafa þennan háttinn á. Það var ekki skemmtilegt en sem betur fer gerðist ekkert alvarlegt og það sem gerðist leystist farsællega og við vildum ekki vekja athygli á því. En þetta var sérstakur tími og mikill hiti í fólki,“ segir Tómas.

Andstaðan skiljanleg

Tómas segir geta skilið þær deilur sem risu um virkjanaáform sem þá voru á teikniborðinu. Um tíma var stefnt að því að stækka álverin í Hvalfirði og Straumsvík sem og að byggja álver í Helguvík og á Bakka. „Ég lít svo á að menn hafi að einhverju leyti verið að bregðast við öllum þessum áformum á sínum tíma. Ég skil því ágætlega að fólk hafi brugðist við því. Það var ekkert óeðlilegt við það. Það er eðlilegt að tekist sé á um auðlindanýtingu. En okkur tekst oft að pólarísera umræðuna um ákveðna hluti og á þessum tíma var þessi umræða ansi heit. En ef við horfum á Landsvirkjun og Kárahnjúkavirkjun er klárt að fjárhagslega hefur þetta borgað sig. Það er miklu sterkara fyrirtæki í dag. Menn væru ekki að tala um auðlindasjóði nema í því fyrirtæki hefðu verið teknar efnahagslega réttar ákvarðanir í gegnum tíðina. En það má alltaf gagnrýna og rökræða umhverfisþáttinn og ég ber virðingu fyrir þeim sjónarmiðum.

Nánar er rætt við Tómas Má í Áramótum , sérriti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .