Sigurður Valtýsson, fyrrverandi forstjóri Exista, hefur fengið prókúruumboð í nokkrum félögum í eigu Bakkavararbræðranna Lýðs og Ágústs Guðmundssona sem voru meirihlutaeigendur Exista. Þetta eru félögin BF Food Invest ehf., Tjarnargata 35 ehf., sem heldur utan um skrifstofu Bakkavarar við Reykjavíkurtjörn, og félögin Kork ehf. og BBRR ehf. Þá er hann jafnframt kominn með prókúruumboð í félögunum GT 1, sem heldur utan um fasteignir Lýðs hér á landi, og GT 2 sem á eignir Ágústs.

BBRR var stofnað sérstaklega til að halda utan um kaup bræðranna á ný í Bakkavör eftir að kröfuhafar tóku félagið yfir. Korkur tengir Sigurð og Lýð jafnframt saman en seint í júní síðastliðnum voru þeir báðir sýknaðir í héraðsdómi í máli sérstaks saksóknara á hendur þeim vegna 50 milljóna króna láns frá VÍS, sem var í eigu Exista, til Sigurðar og Korks.

Sigurður vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað.