Sigyn Jónsdóttir, formaður Ungra athafnakvenna (UAK), segir stjórn samtakanna fagna #metoo umræðunni. „Það er magnað að fylgjast með því hvernig konur í hverjum geira á fætur öðrum rjúfa þögnina og hvað það er flott að sjá konur sýna það hugrekki að stíga fram,“ segir Sigyn.

„Ég vildi óska að það kæmi mér meira á óvart hvað þetta er algengt en það gerir það ekki, verandi kona. Við hjá UAK ætlum að hnýta þessa umræðu saman eftir áramót og vera með málstofu um #metoo. Við viljum heyra fleiri sögur og álit en líka sjá hver verða næstu skref. Hvað gerum við við allar þessar upplýsingar? Þvert á atvinnulífið þá þurfum við að kalla stjórnendur til ábyrgðar.“ Sigyn veltir upp þeirri spurningu hvort vinnustaði vanti tæki og tól til að taka á þeim vanda sem umræðan varpar ljósi á.

„Við erum, ekki frekar en nokkur, með lausnina en umræðan er af hinu góða. Maður horfir björtum augum fram á veginn þegar umræðan er ekki drepin niður. Það er ákveðin valdefling hvað umræðan er sterk. Fólk sem lendir í áreitni í lífi og starfi er núna með risastórt lið sér að baki og á kannski aðeins auðveldara í dag með að segja blákalt: „þetta er óviðeigandi“ og vera ekki hrætt um að vera úthrópað fyrir það.“

Heldur þú að þessi raunveruleiki sem umræðan varpar ljósi á hafi dregið úr konum?

„Auðvitað. Þetta er bara eins og einelti og áreitni. Það að geta ekki sinnt starfi sínu í friði vegna kyns eða hvers sem er, er algjörlega óásættanlegt. Þetta er eitthvað sem hefur viðgengist allt of lengi, sennilega alltaf, en núna eru konur búnar að segja stopp og ætla ekki að sitja undir þessu lengur. Nú þurfum við að halda þessu á lofti keyra þetta í gegn með aðgerðum og eftirfylgni. Við í UAK erum fullar eldmóði. Þessi bylgja er hvergi nærri búin,“ segir Sigyn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .