Sýningin Amazing Home Show verður haldin í Laugardalshöll dagana 18.-21. maí 2017 en það er viðburðafyrirtækið Vista Expo sem stendur að sýningunni. Amazing Home Show verður með stærri sýningum sem hefur verið haldin fyrir almenning hér á landi og að öllum líkindum sú stærsta þegar kemur að sýningum sem snúa að heimilinu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Á sýningunni verður lögð áhersla á nútímaheimilið bæði að innan sem og að utan, fjölskylduna jafnt og frístundir hennar, það nýjasta í matargerð, hönnun og nýsköpun.

„Þetta verður þemaskipt hjá okkur í fimm þemu, nútímaheimilið, Food & Style, fjölskylduna, garðinn og umhverfið og  síðan framkvæmdir og viðhald. Við verðum bæði í nýju og gömlu Höllinni svo það er óhætt að segja að það verður af nógu að taka fyrir gesti,“ segir Ómar Már Jónsson, sýningarstjóri sýningarinnar hjá Vista Expo.

„Þetta er sýning fyrir alla fjölskylduna, fagmenn og þá einstaklinga sem hafa áhuga á öllu því sem tengist heimilinu. Heima hjá sér eiga margir sínar bestu stundir og ég gef mér að allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi í Höllinni í maí,“ bætir hann við.

Samstarfsaðilar eru Samtök iðnaðarins og Nýsköpunarmiðstöð Íslands.