Um 4.600 fjárfestar tóku þátt í hlutafjárútboði Play sem fram fór í síðustu viku. Eftirspurn eftir boðnu hlutafé í félaginu var áttföld og til þess að tryggja að allir þátttakendur fengju bréf þurfti að skerða úthlutun til fjárfesta vegna tilboða sem námu yfir um 280 þúsund krónum.

Hlutafjárútboð Play er það fimmtánda stærsta af 62 frumútboðum sem fram hafa farið á árinu á First North mörkuðum, sem einkum eru á Norðurlöndunum og í Eystrasaltslöndunum.

Ekkert félag á íslenska First North markaðinum hefur viðlíka fjölmennan hluthafahóp og Play mun hafa við skráningu. Miðað við nýjustu ársreikninga eru 558 hluthafar í Sláturfélagi Suðurlands, 305 í Klöppum, 242 í Hampiðjunni og 120 í Kaldalóni.

Hluthafahópur Play fjölmennari en flestra félaga á aðalmarkaði

Fjöldi hluthafa í Play er ekki síður mikill í samanburði við félög sem skráð eru á aðalmarkað í íslensku Kauphöllinni en fjöldi hluthafa hjá Play verður að óbreyttu meiri en hjá þeim flestum. Aðeins fjögur eða fimm af tuttugu félögum á aðalmarkaði hafa stærri hóp hluthafa, það eru Íslandsbanki, Icelandair, Arion banki, Síldarvinnslan og mögulega Marel.

Fjöldi hluthafa Marel liggur ekki fyrir eftir tvíhliðaskráningu hlutabréfa félagsins í Euronext kauphöllinni í Amsterdam árið 2019. Fyrir skráninguna ytra var fjöldi hluthafa félagsins um 2.500 en um 4.700 fjárfestar komu inn í félagið við skráninguna ytra. Ekki liggur fyrir hve margir þeirra áttu hlut í félaginu í íslensku kauphöllinni.

Flest skráð félög á íslenskan aðalmarkað hafa færri en þúsund hluthafa, að fyrrgreindum félögum undanskildum auk Kviku banka, hvers hluthafar eru tæplega 2.000 talsins, og Reitum, með ríflega þúsund hluthafa, ef enn er að marka upplýsingar sem teknar voru saman fyrir skráningu Síldarvinnslunnar og Íslandsbanka.

Þátttaka almennings á hlutabréfamarkaði hefur margfaldast frá árslokum 2019, en Kauphöllin segir frá því á Twitter að yfir 32.000 einstaklingar eigi hlut í félagi sem skráð er á markað eða um 9% af heildaríbúafjölda landsins, samanborið við um 8 þúsund í lok árs 2019.