Viðskiptablaðið fjallaði í vikunni um bein áhrif stríðsástandsins í Úkraínu á íslenskt atvinnulíf. Tvö af stærstu útflutningsfyrirtækjum Íslands hafa ekki farið varhluta af þróuninni. Rússlands- og Úkraínumarkaður vega þó ekki þungt sem hlutfall af heildarveltu félaganna og ástandið hefur lítil áhrif á framleiðslu þeirra.

Stoðtækjaframleiðandinn Össur hefur stöðvað sölu til Rússlands en hún var um 1% af árlegri sölu á síðasta ári, að því er kemur fram í skriflegu svari við fyrirspurn Viðskiptablaðsins. Þá hefur sala til Úkraínu verið lítill hluti af árlegri sölu félagsins.

Össur er ekki með beina starfsemi í Rússlandi eða Úkraínu. Félagið útvistar þó hluta af verkefnum upplýsingatæknideildar til starfsmanna í Úkraínu og fylgist náið með stöðu mála þar. Össur hefur keypt hráefni frá Rússlandi en félagið segist hafa möguleika á að leita annað í þeim efnum.

Marel er með skrifstofu í Rússlandi fyrir sölu og þjónustu en engin framleiðsla á sér stað í því útibúi. Félagið er með um 70 starfsmenn í Rússlandi og í Úkraínu. Í Rússlandi hefur Marel verið með viðskiptasambönd til lengri tíma sem hafa tryggt góða sölu undanfarin ár. Sem hluti af heildartekjum er salan í Rússlandi lág og óveruleg í Úkraínu.

Marel er með fimmtán framleiðslustöðvar víðs vegar um heiminn og víðtækt net birgja. Því hefur félaginu tekist vel til í gegnum tíðina að sækja aðföng á nærmörkuðum.

Ítarlega er fjallað um margvísleg áhrif stríðsins á íslenskt efnahagslíf í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .