Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár, var með tæplega 3,1 milljón króna í laun og hlunnindi í fyrra. Þetta gerðu rétt tæplega 36,8 milljónir króna í árslaun og er sambærilegt og forstjórar VÍS og TM voru með í laun á sama tíma. Til samanburðar var Hermann með rétt tæplega 33,8 milljónir króna í laun og hlunnindi allt árið 2012. Inni í upplýsingum um laun forstjórans sem birt eru í skráningarlýsingu Sjóvár, eru ekki upplýsingar um mótframlag í lífeyrissjóð. Það nam rétt tæpum fimm milljónum króna á síðasta ári. Laun Hermanns hækkuðu um tæp 9% á milli ára.

Viðskiptablaðið fjallaði um laun forstjóra skráðu Kauphallarfélaganna í síðustu viku. Þar kom fram að meðallaun forstjóra fyrirtækja sem eru með skráð hlutabréf á markaði voru 4,7 milljónir króna á mánuði. Þau voru að jafnaði 7,2% hærri í fyrra en árið 2012.

Ítarlegt viðtal er við Hermann í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Blaðið má nálgast með því að smella á hlekkinn Tölublöð .