Samanlögð bein eign Brimgarða í hlutabréfum Eikar, að viðbættum beinum og ábeinum réttindum samkvæmt fjármálagerningum, er rúmlega 29%. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar en dagsetning viðskipta var í gær.

Í tilkynningunni kemur fram að Brimgarðar eigi nú 15,3% beint og hefur aukið hlut sinn lítillega eða um 15 milljónir króna að nafnvirði. Miðað við gengi bréfa í Eik er markaðsvirði aukningarinnar um 150 milljónir króna en heildarhluturinn metinn á 5,2 milljarða króna.

Til viðbótar hefur félagið gert framvirka kaupsamninga, markaðsvirði þeirra er um rúmlega 318 milljónir króna, fyrir 9,3% hlut í Eik. Þá eru ótaldir fjármálagerningar sem ekki eru framvirkir samningar en veita sambærileg réttindi og rétt til að afla hluta í félaginu eða hafa sambærileg efnahagsleg áhrif. Sá hlutur er 4,9%. Samtala atkvæða er 29,4%, fjöldi hluta rúmlega milljarður og markaðsvirði því rétt norðan við tíu milljarða króna.

Brimgarðar eru dótturfélag Langasjávar. Nýverið gengu í gegn kaup Langasjávar á Ölmu íbúðarfélagi hf. og í liðnum mánuði var samþykkt að Alma keypti alla hluti í Brimgörðum. Í lok árs nam eigið fé Brimgarða rúmlega tíu milljörðum króna og eignir félagsins voru metnar á 17,6 milljarða króna.