„Ef við gefum okkur hámarksvararefsingu þá eru það 360 dagar. Þá er viðkomandi að vinna í 480 klukkustundir sem deilast niður á 13 til 14 mánuði. Það er þá ólaunað starf í þágu samfélagsins,“ sagði Páll Winkel, fangelsismálastjóri, um samfélagsþjónustu í Bítinu á Bylgunni í morgun. Páll tekur undir gagnrýni Ríkisendurskoðunar sem lýsti á dögunum áhyggjum af því hve illa gengur að innheimta dómssektir vegna skattalagabrota.

Samkvæmt lögum geta þeir sem ekki eru borgunarmenn fjársekta vegna lagabrota tekið út dóm sinn með því að sinna samfélagsþjónustu. Páll benti í viðtalinu á að sektarfjárhæðir eru gjarnan gríðarháar. Þannig geta þær hlaupið á tugum og hundruðum milljóna.

„Sektirnar eru himinháar og sumir virðast ná að koma eignum undan og eru þá ekki borgunarmenn,“ sagði Páll.

Páll tók þó fram að endurkomutíðni þeirra í fangelsi sem afplána dóma með samfélagsþjónustu er mjög lág hér á Íslandi og telur Páll fyrirkomulagið að því leyti hafa gefist vel. Hins vegar þurfi að endurskoða þessar háu sektir og dæma þá heldur þá í fangelsi sem þyngstu dómana fá eða jafnvel setja hámarksfjárhæð á þær sektir sem eru veittar, til dæmis við 50 milljónir króna.