Samkvæmt lista yfir hluthafa Íslandsbanka, sem Viðskiptablaðið hefur séð, á hlutafélagið Al Mehwar Commercial Investments LLC 18 milljónir hluti eða 0,9% af hlutafé Íslandsbanka. Markaðsvirði hlutarins er rúmlega 1,8 milljarðar króna miðað við núverandi hlutabréfagengi Íslandsbanka. Félagið var ekki á lista yfir stærstu hluthafa Íslandsbanka að loknu útboðinu sem birtur var á miðvikudaginn og því má gera ráð fyrir að sjóðurinn hafi keypt bréfin að mestu eða öllu leyti eftir útboðið.

Svo virðist sem Al Mehwar falli undir eitt ríkisfjárfestingafélaga furstadæmisins Abú Dabí, Abu Dhabi Investment Council (ADIC) en stjórnarformaður Al Mehwar, Mohammed Ali Al Shaheri, er einn æðsti stjórnandi ADIC og skrifstofur félaganna eru skráðar í sömu byggingu.

ADIC var stofnað árið 2007 af ADIA, þriðja stærsta þjóðarsjóði heims, til að fjárfesta „umfram fjármagni“  furstadæmisins í alþjóðlega dreift eignasafn, samkvæmt heimasíðu fjárfestingafélagsins. Ein stærsta eign félagsins er First Abu Dhabi Bank, stærsti banki Sameinuðu arabísku furstadæmanna (UAE) en auk þess á það í þremur öðrum bönkum þar í landi. Ein frægasta fjárfesting ADIC kom árið þegar sjóðurinn keypti 90% í Chrysler byggingunni í New York á 800 milljónir dala. Sjóðurinn seldi svo bygginguna árið 2019 fyrir einungis 150 milljónir dala.

Af öðrum erlendum fjárfestum sem komu ekki fram á listanum yfir tuttugu stærstu hluthafa Íslandsbanka í kjölfar útboðsins er SEI Institutional með 0,34% hlut. Einnig er Arbiter Partners með 0,13% hlut. Ekki er ljóst hvort umræddir fjárfestar fengu úthlutað hlutunum í hlutafjárútboðinu eða hvort þeir hafi átt viðskipti í kjölfarið.

Þá virðast hjónin Bogi Þór Siguroddsson og Linda Björk Ólafsdóttir vera orðin stærstu einkafjárfestarnir í bankanum með 0,2% hlut í gegnum félögin Bóksal ehf. og AKSO ehf, sem heldur utan um rekstur Fagkaupa. Markaðsvirði hlutarins nemur hátt í 400 milljónir króna.

Reynir Grétarsson, stofnandi Creditinfo, á um 0,05% hlut í Íslandsbanka, jafnvirði tæplega hundrað milljónum króna, í gegnum félagið InfoCapital ehf. Reynir keypti fyrr í ár 0,5% hlut í Arion Banka fyrir um milljarð króna í apríl síðastliðnum.