Þrjú tæknifyrirtæki stýra meira en helming af auglýsingamarkaðnum í heimi, ef Kína er undanskilið. Um er að ræða Alphabet, móðurfélag Google, Meta, móðurfélag Facebook og Amazon en hlutdeild þeirra af auglýsingatekjum hefur tvöfaldast á síðustu fimm árum samkvæmt skýrslu GroupM. Financial Times greinir frá.

Áætlað er að stafrænar auglýsingar hafi vaxið, ólíkt öðrum auglýsingaleiðum, á síðasta ári. Gert er ráð fyrir að tekjur af stafrænum auglýsingum aukist um 30,5% í ár og verði um 491 milljarður dala. Til samanburðar er spáð því að útgjöld í allar aðrar helstu tegundir af auglýsingum verði lægri í ár heldur en árið 2019.

Það stefnir í að stafræni auglýsingamarkaðurinn verði með nærri tvo þriðju af auglýsingatekjum á heimsvísu í ár en til samanburðar var sá markaður með tæplega fjórðung árið 2014. Alphabet, Meta og Amazon stjórna um 80%-90% af stafræna auglýsingamarkaðnum utan Kína.

Í skýrslunni er spáð því að tekjur alheimsauglýsingaiðnaðarins, að undanskildum auglýsingum á sviði bandarískra stjórnmála, nemi 763 milljörðum dala í ár, sem er um 18,7% aukning frá árinu 2019.