„Það hefur gengið illa. Það var lítið af humri í fyrra en það er mikið minni veiði núna,“ segir Einar Geir Guðnason, skipstjóri á Jóni á Hofi sem man tímana tvenna á humarveiðum. Einar Geir fór á sína fyrstu humarvertíð snemma á níunda áratug síðustu aldar. Hann kveðst aldrei hafa upplifað svo mikla lægð í humarstofninum.

„Þetta fer hríðversnandi. Eins og síðustu árin er ekki að alast upp humar. Það vantar margar kynslóðir inn í stofninn. Það er mjög lítið af smáum humri í aflanum. Það gefur engar sérstakar vonir til framtíðar,“ segir Einar Geir.

Níu manns eru á Jóni á Hofi sem hafa lífsviðurværi sitt af veiðunum. Það eru auðvitað engar moktekjur þegar humarveiðin er svo dræm en Einar Geir segir að meðaflinn bjargi því sem bjargað verður. Lengi eftir vertíðarlok hafi verið mikill þorskur í meðafla og það hafi staðið lengur yfir en áður fyrr. Þegar þorskurinn gengur út aftur eftir hrygningu er vanalega ágæt veiði í um hálfan mánuð en núna var mikill þorskur í fast að einn mánuð. Núna sé talsvert af karfa í meðafla.

Veiðar nauðsynlegar

Hann segir að þrátt fyrir mjög dræma veiði sé nauðsynlegt að stunda þær á hverju ári. Það sé eina aðferðin til þess að fylgjast með því hvernig humarstofninum reiði fram. Þær humarveiðar sem nú eru stundaðar gangi ekki endanlega frá stofninum. Einungis sex bátar stundi veiðarnar og heildarkvótinn ekki nema rétt rúmlega 200 tonn. Ekki er einu sinni útlit fyrir að hann náist allur á þessu fiskveiðaári.

„Ég man að á mínum yngri árum voru 127 bátar á humar. Þó að vertíðirnar nú séu lengri og allir með tvö troll þá er veiðiálagið mun minna núna. Auk þess hafa veiðisvæðin stækkað sennilega um helming og ný bæst við.“

20 ár á humri

Um 20 ár eru síðan Einar Geir fór að fara á humarvertíðir á Jóni á Hofi. Um það leyti var stofninn að koma upp úr lægð. Veiðin jókst ár frá ári.

„Það endaði svo með stóra mokinu, sem við köllum svo í dag. Í framhaldinu dró verulega úr veiðinni. Þetta hefur því svo sem gerst áður með humarstofninn. Það hafa komið miklar lægðir og engin ástæða beinlínis til þess að örvænta. Það gæti vel verið að þessi lægð sé dýpri en þær fyrri. Það er sömu sögu að segja af hinum bátunum, það er mjög lítil veiði hjá öllum.“

Humarinn sem þó berst á land er allur mjög stór en nánast enginn smáhumar í honum. Verðin taka mið af því en Einar Geir kveðst lítið spá í þau mál. Jón á Hofi hafði kvóta fyrir 11 tonnum og á eftir nálægt þrjú tonn á vertíðinni. Um miðjan júlí verður stopp og var Einar Geir ekki viss um hvort áfram yrði elst við humarinn.

Ráðgjöfin skorin

Hafrannsóknastofnun gaf út ráðgjöf sína í janúar og hljóðaði upp á að afli ársins 2020 yrði ekki meiri en 214 tonn svo fylgjast mætti með stærðarsamsetningu og dreifingu stofnsins. Jafnframt lagði stofnunin til miklar takmarkanir á góðum humarmiðum.

Staða humarveiða við Ísland er því gjörbreytt og í raun um rannsóknakvóta að ræða. Veiðar í fyrra voru aðeins brotabrot af því sem gerðist þegar best lét. Þá voru veidd rúm 250 tonn en 1.186 og 869 tonn árin á undan. Þau ár náðist ekki kvótinn sem gefinn var út.