Stafræna auglýsingastofan The Engine hefur hefur verið valin sem ein af 10 bestu stafrænu markaðsstofum í Evrópu árið 2020 af MarTech Outlook sem er eitt fremsta markaðstímarit heims. Er þetta annað árið í röð sem MarTech Outlook velur slíkan lista. The Engine er dótturfyrirtæki Pipar\TBWA. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu, en annað íslenskt fyrirtæki, SAHARA, er einnig ein af 10 bestu stafrænu markaðsstofum Evrópu samkvæmt fyrrnefndum lista.

„Þetta er mjög mikil viðurkenning fyrir okkur og það alþjóðlega markaðsstarf sem við sinnum fyrir viðskiptavini okkar,“ segir Hreggviður Magnússon, leiðtogi í stafrænni markaðssetningu hjá The Engine í tilkynningunni.

Davíð Lúther framkvæmdastjóri Sahara
Davíð Lúther framkvæmdastjóri Sahara
© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Við erum virkilega ánægð með þetta og stolt af starfsfólki SAHARA sem leggur sig alla daga fram að koma okkur á kortið erlendis, en SAHARA hefur aðstoðað mörg fyrirtæki síðustu ár í Bandaríkjunum, Bretlandi og Skandinavíu með frábærum árangri. Við erum bara rétt að byrja," segir Davíð Lúther Sigurðarson, framkvæmdastjóri SAHARA.

„Meðal verkefna okkar er að stýra viðamikilli stafrænni strategíu fyrir írska fjártæknifyrirtækið Taxback International sem er B2B fyrirtæki og er með lykilmarkaðir í Bretlandi, Þýskalandi, Frakklandi og á Norðurlöndunum. Fyrir þessa vinnu fengum við meðal annars nokkrar tilnefningar til alþjóðlegra verðlauna í stafrænni markaðssetningu í fyrra. Jafnframt framkvæmdum við viðamikla úttekt á stafrænum innviðum Tetra Pak, sem er sænskt fyrirtæki með 24.000 starfsmenn, og settum fyrirtækið á Digital Maturity Ladder. Í Þýskalandi erum við að sjá um stafrænar markaðsherferðir fyrir Demicon og erum við jafnframt að endurhanna ásýnd, vefsíðu og logo fyrirtækisins. Svo er skrifstofa okkar í Noregi með stækkandi flóru viðskiptavina á Noregsmarkaði. Nú í janúar erum við svo að senda inn tilboð til Food Delivery App fyrirtækis, Waitr & Bite Squad, sem staðsett er í 700 borgum í Suðurríkjum Bandaríkjanna um að sjá um Google/Bing/Apple auglýsingar þeirra, þar sem birtingarveltan er gríðarleg," er einnig haft eftir Hreggviði.

The Engine fékk alls fimm tilnefningar til European Search Awards á síðasta ári, fjórar tilnefningar til Nordic Search Awards og tvennar tilnefningar hjá Global Marketing Awards, þar sem stofan tók heim Best Global PPC herferðina fyrir Gray Line á Íslandi.
„Það má segja að árið 2020 hafi einkennst af fjölbreyttum og alþjóðlegum stafrænum verkefnum, þar sem viðskiptavinir okkar voru víðsvegar í heiminum en allir með eitt sameiginlegt, að ná árangri með stafrænni markaðssetningu. Ég er fyrst of fremst stoltur af því ötula og hæfa starfsfólki okkar sem hafa staðið sem eitt í gegnum erfitt ár og leyst verkefnin vel fyrir okkar viðskiptavini," segir Hreggviður að lokum í tilkynningunni.