*

miðvikudagur, 27. október 2021
Innlent 4. október 2020 19:44

Á meðal 100 áhrifamestu í heiminum

Stofnandi Marz sjávarafurða í Stykkishólmi eru meðal þriggja Íslendinga á lista yfir 100 áhrifamestu forstjóra sjávarútvegi í heiminum.

Ingvar Haraldsson
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, Kristján Þ. Davíðsson, forstjóri Brims, og Erla Björg Guðrúnardóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Marz sjávarafurða.
Aðsend mynd

Þrír Íslendingar eru meðal hundrað áhrifamestu forstjóranna í sjávarútvegi á heimsvísu samkvæmt samantekt sjávarútvegsfréttamiðilsins Intrafish. Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, er í 16. sæti á listanum, Kristján Þ. Davíðsson, starfandi forstjóri Brims, er í 59. sæti og Erla Björg Guðrúnardóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri sölufélagsins Marz sjávarafurða í Stykkishólmi er í 92. sæti listans.

Erla stofnaði félagið ásamt eiginmanni sínum, Sigurði Ágústssyni, árið 2003, eftir að hafa lokið námi í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík árið 2003 og hefur byggt félagið upp í hægum skrefum síðan. Sigurður rekur fiskvinnslufélagið Agustson ehf. í Stykkishólmi.

Fyrstu árin var Erla með skrifstofu fyrir ofan fiskvinnslu Agustson og keypti að mestu fisk sem aðrir höfðu lítinn áhuga á. Starfsmönnunum hefur fjölgað í hægum skrefum síðan og eru þeir í dag átta, og allir kvenkyns líkt og raunin hefur verið nær alfarið frá stofnun félagsins. Marz flutti árið 2010 í gamla pósthúsið í Stykkishólmi en er einnig með skrifstofu í Álaborg í Danmörku. Erla hefur lýst því í viðtölum að félagið hafi lagt áherslu á sölu á mörkuðum sem önnur sölufélög hafi síður viljað selja inn á. Þannig hefur Marz verið með nokkur viðskipti í Suður-Ameríku, en einnig í Afríku, Mið-Austurlöndum, Kína og Rússlandi ásamt fjölda Evrópulanda.

Marz velti 5,1 milljarði króna, samkvæmt síðasta ársreikningi félagsins, fyrir árið 2018 og 4,2 milljörðum króna árið 2017. Þá hagnaðist félagið um 275 milljónir króna árið 2018 og 182 milljónir króna árið 2017. Eignir félagsins námu 1,6 milljörðum króna í lok árs 2018, eigið fé nam ríflega 1,2 milljörðum króna og skuldir um 380 milljónum króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér