Umhverfisstofnun stóð fyrir viðburði í Góða hirðinum í gær ásamt samstarfsaðilum undir yfirskriftinni Allan hringinn. Verkefnið hafði það markmið að kynna þær breytingar sem eru framundan í úrgangsmálum heimila og vinnustaða í kjölfar „hringrásarlaganna“ sem tóku gildi um áramótin.

Táknrænni ruslahrúgu sem vó 667 kíló var komið fyrir á gólfinu en það er meðalmagn heimilisúrgangs sem hver Íslendingur lætur frá sér á hverju ári. Ísland er í sjöunda sæti yfir þær þjóðir innan EES sem henda mestu magni af heimilisúrgangi.

Elva Rakel Jónsdóttir, sviðsstjóri sviðs loftslagsmála og hringrásarhagkerfis hjá Umhverfisstofnun, telur að það sé mikill vilji meðal Íslendinga að huga betri nýtingu, flokkun og að draga úr úrgangsmyndun.

„Við erum að neyta alveg rosalega hratt, við erum að neyta mikils og við erum að láta það rúlla mjög hratt. Við eigum hlutina okkar mjög stutt og það er klárlega einkenni á íslenskri þjóð.“

„Margir erlendis eru til dæmis aldnir upp við að það þurfi að spara vatn í krönum og slökkva ljósin en við erum ekkert endilega alin upp við það.“

Hún segir við að Íslendingar búi við mikla ofgnótt þegar kemur að náttúru og orku og að sem þjóð erum við ekki endilega vön þeirri hugsun að sporna við sóun. „Margir erlendis eru til dæmis aldnir upp við að það þurfi að spara vatn í krönum og slökkva ljósin en við erum ekkert endilega alin upp við það.“

Elva segir að það sé vissulega stéttaskipting á Íslandi og að fólk sé misstöndugt, en eftir sem áður þá finnast ekki jafn stórir hópar í íslensku samfélagi sem eiga mjög lítið eins og í mörgum öðrum löndum. Neyslustig Íslendinga er því á heildina litið mjög hátt miðað við.

Í ljósi umræðu seinustu daga um endurvinnslu segist Elva einnig skilja það mjög vel að almenningur finni fyrir vantrú á endurvinnsluferlinu þegar upp koma frávik. Hún segir að úrgangsmeðhöndlun sé heilt yfir mjög vönduð en telur það jákvætt að vitund almennings sé meiri og að vill að ferlið sé vel gert.

„Heilt yfir þá er rosalega mikilvægt að menn séu skýrir í miðlun sinni. Hingað til hafa kannski einhverjir gefið sér að Íslendingar hafi mjög lítinn áhuga á þessu og því hafa skilaboðin um endurvinnslufarvegi verið mjög einföld. Í stað þess mætti til dæmis vera skýrara hvaða prósenta af úrgangi fer í orkuframleiðslu, endurvinnslu eða aðra endurnýtingu. Ég held að Íslendingar séu orðnir það meðvitaðir að það veitir ekki af skýrri upplýsingagjöf,“ segir Elva.