Meðalávöxtun af útleigu íbúðarhúsnæðis er 6,88% og hefur hækkað um 0,06 prósentustig frá því í fyrra. Meðalávöxtun fyrirtækja er 7,2% og eykst um 0,2% frá því í fyrra. Meðalávöxtun einstaklinga var óbreytt milli ára og nam 6,7%. Frá þessu er greint í hagsjá Landsbankans.

Ávöxtun, samkvæmt skilgreiningu og útreikningum Þjóðskrár, hefur haldist nær óbreytt á síðustu þremur árum eftir mikla hækkun á árunum 2011-2014 og svo lækkun á árunum 2015-2018. Úrvinnsla Þjóðskrár byggir á ríflega 6.000 leigusamningum, þar af voru einstaklingar leigusali í tilfelli 3.577 samninga og fyrirtæki í tilfelli 2.490 samninga.

Sjá einnig: Mest áhrif á leiguverð í miðbænum

Einstaklingar eru því um 60% leigusala en fyrirtæki 40%. Sú hlutdeild hefur haldist nær óbreytt á síðustu fjórum árum eftir að hlutdeild fjármálastofnana fór að minnka verulega. Á höfuðborgarsvæðinu eru einstaklingar með 66% hlutdeild.

Fram kemur að hina ýmsu kostnaðarliði vantar í útreikninga Þjóðskrár. Meðal annars er ekki tekið tillit til viðhalds, trygginga, fasteignagjalda og annarra skatta. Úttektin þjónar samt ákveðnum tilgangi þar sem hún sýnir þróun ávöxtunar yfir tíma og eftir ólíkum svæðum. Ekki hefur verið jafn lítil breyting á ávöxtun milli ára og nú á síðustu þremur árum.

Ávöxtun lægri á höfuðborgarsvæðinu

Bæði meðal fyrirtækja og einstaklinga reynist ávöxtun lægri á höfuðborgarsvæðinu samanborið við utan þess. Samanlagt mælist hún 6,4% á höfuðborgarsvæðinu en 7,9% utan þess.

Hjá fyrirtækjum eru hlutfallslega flestir samningar vegna útleigu íbúða í Reykjanesbæ. Þar liggur ávöxtunin á bilinu 7-11,3% eftir tegund íbúða þar sem ávöxtun er hærri eftir því sem íbúðin er minni.

Á meðal einstaklinga eru hlutfallslega flestir að leigja út íbúð á svæðinu vestan við Kringlumýrarbraut í Reykjavík og á Seltjarnarnesi. Ávöxtunin þar liggur á bilinu 5,4-6,3% meðal einstaklinga en 6-7,4% hjá fyrirtækjum.