Yfirskattanefnd (YSKN) felldi nýverið úr gildi úrskurð Skattsins í máli SJ Fjárfestingafélags ehf. en það er í eigu Sigurjóns Jónssonar, stjórnarformanns skipasmíðastöðvarinnar Skipavíkur í Stykkishólmi.

Téður Sigurjón hefur frá stofnun Eyris Invest átt hlut í félaginu en fram til ársins 2015 hafði hann verið skráður persónulega fyrir hlut sínum í félaginu. Árið 2015 fór hann þess á leit við skattayfirvöld að eignarhald og umsýsla á hlutnum yrði talin sem atvinnurekstur í skattalegu tilliti. Var því hafnað bæði af Skattinum og YSKN.

Árið 2015 stofnaði hann SJ Fjárfestingafélag og færði hlutinn yfir í félagið en skömmu fyrir stofnun seldi hann hluti í Eyri fyrir rúman milljarð til fullnaðaruppgjörs við lánastofnun. Eftir stofnun seldi félagið fleiri hluti í Eyri árin 2016 og 2017. Skatturinn taldi að skilyrði tekjuskattslaganna fyrir yfirfærslu einkarekstrar í einkahlutafélag væru ekki fyrir hendi sökum fyrri úrskurða.

Salan 2015 yrði skattlögð hjá Sigurjóni en hin árin mat Skatturinn það svo að hann hefði ennþá verið eigandi bréfanna þar sem önnur niðurstaða, það er sú að hann hefði selt félaginu þau, „hefði í för með sér óhóflega skattlagningu“. YSKN felldi síðari hluta úrskurðarins úr gildi þar sem ákvæði tekjuskattslaganna væru fortakslaus og leyfðu Skattinum ekki mat á grunni meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins.