Laun félagsmanna VR hækkuðu um 5,5% milli janúar 2016 og janúar 2017 að meðaltali. Þetta kemur fram í árlegri launakönnun félagsins . Launamunur kynjanna breyttist ekki marktækt að sögn VR, en vinnutíminn styttist hins vegar um hálfa klukkustund.

Grunnlaun félagsmanna VR í janúar síðastliðnum voru að meðaltali 588 þúsund krónur á mánuði og heildarlaun voru 630 þúsund krónur að meðaltali. Hækkunin á bæði grunn- og heildarlaunum nemur um 5,5% frá sama mánuði árið 2016. Laun fyrir klukkustund hækka hins vegar umtalsvert meira samkvæmt launakönnuninni, eða um 6,9% yfir sama tímabil.

„Nokkrar breytingar hafa orðið á milli ára sem geta skýrt það að launahækkun skv. launakönnun í ár er minni en sem nemur kjarasamningsbundinni launahækkun milli janúarmánaða 2016 og 2017. Svarendahópurinn er öðruvísi samsettur en á síðasta ári, einkum er mikil fjölgun í svörum starfsmanna í lægri launuðum atvinnugreinum og starfsstéttum. Til dæmis fjölgar svarendum í ferðaþjónustu um hátt í þriðjung milli ára. Þá er vinnuvika svarenda marktækt styttri í ár sem nemur hálfri klukkustund og starfsaldur félagsmanna hefur lækkað um hálft ár,“ segir í tilkynningu frá VR.