Á árinu 2010 störfuðu að meðaltali 41 starfsmaður hjá Íslensku auglýsingastofunni miðað við heilsársstörf og námu launagreiðslur fyrirtækisins alls 281 milljón króna. Miðað við það eru meðallaun starfsmanna um 572 þúsund krónur á mánuði eða 6,9 milljónir króna á ári.

Viðbót kl. 11:56 : Inni í launagreiðslu fyrirtækis eru oftast launatengd gjöld eins og tryggingargjald og greiðslur í lífeyrissjóð. Orðrétt segir í ársreikningi Íslensku auglýsingastofunnar: „[...] námu launagreiðslur samtals 281,3 millj.kr.“

Í árslok 2010 voru fimm hluthafar í Íslensku auglýsingastofunni eða jafnmargir og í lok ársins á undan. Þeir eru eftirfarandi.

  • Seimur ehf.  66,11%
  • Jónas Ólafsson 12,37%
  • Ólafur Ingi Ólafsson  12,37%
  • Kristján Schram  4,9%
  • Guðmundur Stefán Maríusson  2,75%

Eigendur Seimur ehf. eru þeir Atli Freyr Sveinsson og Hjalti Jónsson sem eiga félagið til helminga og eru þar með stærstu einstöku hluthafar í Íslensku auglýsingastofunni. Í ársreikningi félagsins er 66,11% hlutur þeirra í auglýsingastofunni bókfærður á 185,5 milljónir króna. Félagið skilaði 75,9 milljónum króna í hagnað árið 2010 og er eigið fé þess 183,9 milljónir króna. Skuldir félagsins nema 38,4 milljónum króna.