Regluleg laun á almennum vinnumarkaði voru 348 þúsund krónur að meðaltali árið 2010. Algengast var að regluleg laun væru á bilinu 175–225 þúsund krónur og var rúmlega fimmtungur launamanna með laun á því bili. Þá var helmingur launamanna var með 294 þúsund krónur eða lægri laun á mánuði. Regluleg laun karla voru 374 þúsund krónur að meðaltali en regluleg laun kvenna 309 þúsund krónur. Hagstofan birtir tölur yfir laun á almennum vinnumarkaði síðasta árs.

Heildarlaun fullvinnandi launamanna voru 438 þúsund krónur á mánuði árið 2010

Heildarlaun þeirra launamanna sem teljast fullvinnandi voru að meðaltali 438 þúsund krónur á mánuði. Algengast var að heildarlaun væru á bilinu 325–375 þúsund krónur og voru 15% fullvinnandi launamanna með heildarlaun á því bili. Helmingur launamanna var með heildarlaun undir 391 þúsund krónur árið 2010 en það var miðgildi heildarlauna. Regluleg heildarlaun voru að meðaltali 409 þúsund krónur og miðgildi þeirra var 363 þúsund krónur. Regluleg laun fullvinnandi launamanna voru 381 þúsund krónur að meðaltali og miðgildið var 321 þúsund krónur. Greiddar stundir voru að meðaltali 43,2 á viku.

Bilið á milli hæstu og lægstu launa dregst saman

Launamenn í efsta fjórðungi launastigans voru að jafnaði með 2,7 sinnum hærri laun en launamenn í lægsta fjórðungi árið 2010. Þetta má sjá ef fjórðungastuðull launa er skoðaður. Fjórðungastuðull er hlutfallið á milli launa í efsta fjórðungi launastigans og í neðsta fjórðungi hans og er því mælikvarði á bilið á milli hæstu og lægstu launa. Fjórðungastuðull heildarlauna var 3,0 árið 2005 og hækkaði fram til ársins 2008 og fór í 3,3. Síðastliðin tvö ár hefur stuðullinn lækkað og var 2,7 árið 2010.

Þær niðurstöður sem hér er greint frá byggja á launarannsókn Hagstofu Íslands og ná til tæplega 30 þúsund launamanna á almennum vinnumarkaði. Frekari umfjöllun um niðurstöðurnar má finna í nýju hefti Hagtíðinda um laun á almennum vinnumarkaði 2010. Í heftinu má meðal annars finna ítarlega umfjöllun um laun, vinnutíma og launadreifingu eftir starfsstéttum, atvinnugreinum og kyni. Þá er einnig gerð grein fyrir samsetningu gagnasafnsins sem niðurstöðurnar byggja á.

Laun á almennum vinnumarkaði 2010 - Hagtíðindi