*

laugardagur, 24. október 2020
Innlent 11. ágúst 2020 14:58

Meðalmaðurinn tapar um 326 þúsund

Meðalmaðurinn á íslenskum vinnumarkaði tapar um 326 þús. kr. af ráðstöfunartekjum á mánuði við að missa starf og fara yfir á venjulegar atvinnuleysisbætur.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Sé litið á einfaldan samanburð milli launa í starfi og atvinnuleysisbóta má sjá að meðalmaðurinn á íslenskum vinnumarkaði tapar um 326 þús. kr. af ráðstöfunartekjum á mánuði við að missa starf og fara yfir á venjulegar atvinnuleysisbætur. Frá þessu er greint í Hagsjá Landsbankans

Margir urðu fyrir því áfalli að missa vinnuna þegar veirufaraldurinn kom til sögunnar sl. vetur. Skráð atvinnuleysi hefur aukist mikið og á eftir að aukast meira á næstu mánuðum. Hluti þeirra sem hefur misst vinnuna er enn á uppsagnarfresti og óvissan í atvinnulífinu er enn mikil. Það er mikið áfall að missa vinnuna. Hér verður litið með einföldum hætti á efnahagslegar afleiðingar þess að verða atvinnulaus.

Nýjustu opinberar tölur frá Hagstofu Íslands um laun eru fyrir árið 2018. Séu þær tölur framreiknaðar m.v. þróun launavísitölunnar má fá grófa mynd af því hvaða laun fólk í ákveðnum störfum er með í dag.

Verkafólk og skrifstofufólk er að jafnaði með um 600 þús. kr. í laun á mánuði fyrir fullt starf, iðnaðarmenn með tæp 900 þús. og stjórnendur með um 1,3 milljónir. Meðallaun allra á vinnumarkaðnum fyrir fullt starf eru rúmar 800 þús. kr. á mánuði.

Eftir frádrátt tekjuskatts eru útborguð laun verkafólks og skrifstofufólks um 450 þús. kr. á mánuði, laun iðnaðarmanna um 620 þús. kr. og meðalmaðurinn á vinnumarkaði fær um 570 þús. kr.

Stikkorð: Landsbankinn Hagsjá.