Neysluútgjöld einstaklinga eru 183 þúsund krónur að meðaltali á mánuði. Þetta er 4,6% minna en á árunum 2007 til 2009. Á sama tíma hækkaði vísitala neysluverðs um 5,4% á milli áranna 2009 og 2010 og hafa heimilisútgjöld á hvern einstakling dregist saman um 9,5% að teknu tilliti til verðbreytinga.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í Hagtíðum Hagstofunnar um niðurstöður rannsóknar á útgjöldum heimilanna árin 2008 til 2010.

Í niðurstöðunum kemur meðal annars fram að neysluútgjöld heimilanna hafi verið 442 þúsund krónur á mánuði á árunum 2008 til 2010 og dregist saman um 3,1% á tímabilinu 2007 til 2009. Á sama tíma hafi meðalheimilið stækkað úr 2,37 einstaklingum í 2,41.

Í rannsókn Hagstofunnar voru ráðstöfunartekjur meðalheimilis 508 þúsund krónur á mánuði, 211 þúsund krónur á mann. Ráðstöfunartekjur flestra hópa voru hærri en útgjöld þeirra en neysluútgjöldin voru að meðaltali 87% af ráðstöfunartekjum.

Í úrtaki Hagstofunnar voru 3.475 heimili, 1.861 þeirra tók þátt í rannsókninni og var svörun 53,6%.

Rannsókn á útgjöldum heimilanna