Í samantekt Samtaka atvinnulífsins kemur fram að Ísland er í öðru sæti hvað varðar meðaltekjur einstaklings, borið saman við hin Norðurlöndin þegar tekjurnar eru leiðréttar með tilliti til kaupmáttar, skattgreiðslna og bóta.

Hæstu meðalárstekjurnar um heim allan eftir skatta og bætur árið 2014 voru í Sviss, eða um 6,9 milljónir króna. Þar á eftir eru Noregur og Lúxemborg með 5,25 milljónir króna, og í tíunda sæti í heiminum er Ísland með 4,5 milljónir króna.

Samkvæmt nýjustu hagtölum sést þó að þegar Ísland er borið saman við hin Norðurlöndin er það í öðru sæti á eftir Noregi og með hærri meðaltekjur en Svíþjóð, Danmörk og Finnland.

Meðaltekjur Norðurlandanna, leiðréttar eftir skatta og bætur í október 2015 eru þannig að Noregur trónir á toppnum með 5,2 milljónir króna, Ísland kemur svo næst með 4,9 milljónis króna, og Svíþjóð fylgir fast á eftir með 4,8 milljónir króna. Finnland og Danmörk koma svo þar á eftir, sitt hvort með 4 milljónir og 3,9 milljónir króna.