*

fimmtudagur, 20. febrúar 2020
Innlent 11. ágúst 2019 14:05

Meðalverðið lækkað um tæp 7%

Þorsteinn Andri Haraldsson, sérfræðingur hjá greiningardeild Arion banka, segir að í sumar hafi orðið talsverðar verðlækkanir hjá hótelum.

Magdalena A. Torfadóttir
First Hotel í Hlíðasmára í Kópavogi.
Haraldur Guðjónsson

Undanfarið hafa hótelrekendur lækkað verð á gistinóttum til að bregðast við stöðu ferðaþjónustunnar. Hótelstjórar sem Viðskiptablaðið ræddi við segjast hafa þurft að lækka verð á gistingu um 10–20% að undanförnu og tölur fyrir júní sýna að meðalverð á hótelherbergjum á höfuðborgarsvæðinu hefur lækkað um tæp 7%.

Í markaðspunktum greiningardeildar Arion banka í byrjun júlí kom fram að fækkun ferðamanna hafi ekki haft eins mikil áhrif á ferðaþjónustuna og ætla mætti. Þar kom meðal annars fram að þó svo að erlendum ferðamönnum hafi fækkað um 23,6% milli ára þá hafi heildargistinóttum, bæði skráðum og óskráðum, einungis fækkað um 9%. Þá kom jafnframt fram að svo virðist vera að ferðamenn dvelji hér lengur og eyði meiru.

Samkvæmt tölum frá Samtökum ferðaþjónustunnar var heildarfjöldi skráðra gistinátta hér á landi 8,5 milljónir á síðasta ári í  öllum tegundum gistingar. Óskráðar gistinætur voru áætlaðar um 2,4 milljónir og þar af voru um 1,8 milljón seldar í gegnum Airbnb og sambærilegar vefsíður. Fjöldi skráðra gistinátta á höfuðborgarsvæðinu var um 3,7 milljónir eða um 44% af skráðum gistinóttum en um 59% ef óskráðar eru taldar með. Á síðasta ári  voru flestar gistinæturnar á hótelum á höfuðborgarsvæðinu, eða um 2,6 milljónir, eða 69% af öllum  skráðum gistinóttum á því ári. Hlutfall erlendra gesta var um 93%.

Meðalverðið lækkað um tæp 7% í júní

Þorsteinn Andri Haraldsson, sérfræðingur hjá greiningardeild Arion banka, segir að í sumar hafi orðið talsverðar verðlækkanir hjá hótelum á höfuðborgarsvæðinu. „Þessi þróun hefur komið okkur eilítið á óvart í ljósi veikingar krónunnar. Þau gögn sem við höfum undir höndum gefa til kynna að meðalverð á hótelherbergjum í júní hafi lækkað um tæp 7% en tekjur á herbergi hafa lækkað um 11%,“ segir Þorsteinn og bætir við að á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs hafi orðið þó nokkur samdráttur í herbergjanýtingu.

„Það jákvæða er hins vegar að nýtingin hefur ekki minnkað í takt við fækkun ferðamanna og til að mynda batnaði nýting milli ára í maí. Lægra verð útskýrir þetta líklega að einhverju leyti en sennilega eru margir samverkandi þættir að verki. Einn möguleikinn er að ferðamenn dvelji almennt lengur hér á landi. Síðan er annar möguleiki að ferðamenn séu að færa sig frá Airbnb-íbúðum og yfir á hótelherbergin.“ Hann segir enn fremur að þau takmörkuðu gögn sem til eru um Airbnbgistingar gefi til kynna að töluverður samdráttur sé í framboðinu á þeirri gistingu. Spurður um hvernig hann telji að verðið á gistingu muni þróast þegar líður á sumarið segir hann að það sé erfitt að segja. „Við reiknum með sambærilegri þróun út sumarið.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Ferðaþjónusta Hótel