Medcare Flaga hefur selt nýtt hlutafé fyrir 982 milljónir króna. Andvirðið gengur til fjármögnunar á kaupum félagsins á bandaríska svefnrannsóknarfyrirtækinu SleepTech LLC. Hlutaféð var allt selt á genginu 6,0. Dótturfélag Medcare Flögu hf. hefur skrifað undir samning um kaup á öllum eignarhlutum í SleepTech LLC.

Stjórn Medcare Flögu hf. ákvað að nýta hluta heimildar sinnar til hlutafjáraukningar vegna fjármögnunar á kaupum dótturfélags Medcare Flögu hf. á SleepTech LLC en heimildin var veitt á hlutahafafundi þann 18. maí síðastliðinn. Sölu hlutafjárins er lokið og voru seldir 163.666.667 hlutir á genginu 6,0 sem jafngildir 982 milljónum króna eða um 13,5 milljónum bandaríkjadala. Kaupendur hlutafjárins eru Burðarás hf. og Meidur Holding S.A., dótturfélag Meiðs ehf., sem er fjárfestingafélag í meirihlutaeigu Ágústar og Lýðs Guðmundssona. Fyrirtækjaráðgjöf KB banka veitti Medcare Flögu ráðgjöf við kaupin á SleepTech og hafði umsjón með sölu hins nýútgefna hlutafjár.

Dótturfélag Medcare Flögu hf., Medcare Systems, Inc., hefur nú skrifað undir samning um að kaupa alla eignarhluti SleepTech, LLC. Vegna kaupanna á SleepTech greiðir Medcare Flaga við undirritun kaupsamnings alls 21,5 milljónir dala að meðtöldum kostnaði. Kaupverðið er auk ofangreinds fjármagnað með langtímaláni að fjárhæð um 5,5 milljónir dala og með útgáfu nýrra hluta til seljenda að fjárhæð 2,5 milljónir dala einnig á genginu 6,0. Kaupverð getur hækkað í samtals 26,5 milljónir dala verði rekstrarniðurstöður ársins 2004 í samræmi við áætlanir seljenda. Hækkunin, sem að hámarki getur orðið 5 milljónir dala, verður einnig greidd með hlutafé í Medcare Flögu á genginu 6,0.

Vegna útboðsins og greiðslu hluta kaupverðs með hlutafé við undirritun hækkar hlutafé Medcare Flögu hf. því um 193.454.167 hluta og verður heildarhlutafé félagsins því 670.509.232 milljónir að nafnverði. Stærstu hluthafar félagsins verða þá eftirfarandi.

Áætlaður hluthafalisti eftir útgáfu hlutafjár

Meidur Holding SA 23,3%

Kaupþing Búnaðarbanki hf 13,8%

ResMed Inc. 7,1%

Bogi Óskar Pálsson 4,9%

Burðarás hf 3,5%

Helmke Priess 2,8%

Lífeyrissjóðir Bankastræti 7 2,2%

Vyto Kab 2,1%

Patricia Kab 2,1%

Svanbjörn Thoroddsen forstjóri Medcare Flögu segir eftirfarandi í tilkynningu frá félaginu: ?Eins og fram kom á hluthafafundi félagsins í síðasta mánuði var stefnt að því að fjármagna kaupin að hluta til með sölu nýs hlutafjár til kjölfestufjárfesta sem hefðu fjárhagslega burði til að fylgja félaginu í þeim verkefnum sem framundan eru. Það er því ánægjulegt fyrir okkur að fá til liðs við félagið öfluga hluthafa á borð við Meid Holding og Burðarás."