Tillaga þess efnis að breyta nafni Medcare Flögu í Flaga Group hf. mun verða sett fram á aðalfundi félagsins þann 4. mars n.k. Ætlunin er að félagið verði eignarhaldsfélag og hafi yfirumsjón með aðskildum rekstrareiningum. Til að byrja með verða rekstrareiningarnar tvær, Medcare sem sérhæfir sig í svefngreiningartækjum og SleepTech sem rekur svefnmælingastofur í 18 sjúkrahúsum í Bandaríkjunum.

Medcare Flaga keypti nýlega SleepTech og segir í tilkynningu félagsins að rekstur þess sé í samræmi við væntingar. Stefnt er að stofnun þriðja fyrirtækisins á yfirstandandi ári sem muni sérhæfa sig í þjónustu við svefnmælingarstofur í Bandaríkjunum. Breytingar sem orðið hafa á árinu 2004 þykja auka vissu um nýtingu reiknaðrar skattinneignar og hefur því 2,5 m.USD reiknuð skattinneign verið eignfærð.

Medcare Flaga skilaði 30 þús.USD hagnaði árið 2004 eftir tap síðustu þrjú ár á undan. Tap er þó enn af rekstrinum fyrir reiknaða skatta en 583 þús.USD jákvæður skattaliður á árinu nær afkomunni réttu megin við strikið. EBITDA framlegð á árinu er 3% samanborið við 1% árið á undan.

Tekjur Medcare Flögu á fjórða ársfjórðungi námu 8,6 m.USD sem er um 59% aukning frá sama tímabili árið áður. EBITDA framlegð var 810 þús.USD eða 9,4% af tekjum. Hagnaður eftir skatta nam 479 þús.USD samanborið við 636 þús.USD tap á sama tímabili árið 2003.