Framúrskarandi fyrirtæki ársins voru verðlaunuð í dag, en verðlaunin byggja á greiningu Creditinfo um styrk- og stöðugleika fyrirtækja miðað við ýmsar lykiltölur og breytur.

Valur Ragnarsson.
Valur Ragnarsson.
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Medis Hf. fékk viðurkenningu fyrir að vera í efsta sæti á lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki 2012 og tók Valur Ragnarsson framkvæmdastjóri fyrirtækisins við viðurkenningunni úr hendi fjármálaráðherra, Katrínar Júlíusdóttur.

Kælismiðjan Frost fékk viðurkenningu fyrir að hafa hækkað mest á lista yfir framúrskarandi fyrirtæki síðastliðin þrjú ár, en fyrirtækið er núna í 54. sæti á listanum.

Þá fékk Alefli viðurkenningu fyrir að hafa náð bestum árangri á lista yfir framúrskarandi fyrirtæki í þeirri atvinnugrein sem Creditinfo telur hafa búið við erfiðustu rekstrarskilyrði síðustu ár, þ.e. byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð. Fyrirtækið er í 241 sæti á lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki 2012.

Á heimasíðu Creditinfo segir að eftirfarandi upplýsingar séu lagðar til grundvallar á mati um hvort fyrirtæki uppfylli skilyrði styrkleikamatsins:

  • að hafa skilað ársreikningum til RSK 2009 til 2011
  • minna en 0,5% líkur á alvarlegum vanskilum
  • að sýna jákvæðan rekstrarhagnað (EBIT) þrjú ár í röð
  • að ársniðurstaða sé jákvæð þrjú ár í röð
  • eignir séu 80 milljónir eða meira árin 2009 - 2011
  • að eigið fé sé 20% eða meira, rekstrarárin 2009 til 2011
  • að vera með skráðan framkvæmdastjóra og stjórnarmenn í hlutafélagaskrá
  • að vera virkt fyrirtæki skv. skilgreiningu Creditinfo