Fjórir hljómsveitameðlimir Sigur Rósar hafa verið ákærðir fyrir að stórfelld skattbrot. Skv. ákærunni héraðssaksóknara hafa liðsmennirnir komist hjá að greiða 150 milljónir króna í skattgreiðslur. Samkvæmt tilkynningu frá meðlimum sveitarinnar er enginn ágreiningur á milli þeirra og skattyfirvalda og þeir harmi að málið þurfi að fara fyrir dóm.

Í Tilkynningu er haft eftir Bjarnfreði Ólafssyni lögmanni að brotin séu tilkomin vegna endurskoðanda sveitarinnar sem hafi skilað ýmist röngum framtölum til ríkisskattstjóra eða allt of seint. „Á sama tíma töldu hljómsveitarmeðlimir að þessi mál væru í lagi og í höndum fagmanna."

Gunnar Þór Ásgeirsson endurskoðandi er einnig ákærður í málinu fyrir að hafa  standa ekki skil á skattframtölum söngvara sveitarinnar, Jóns Þórs Birgissonar (Jónsa).

Fyrir rúmu ári síðan var greint frá því að hljómsveitin sætti skattrannsókn og voru eignir að verðmæti 800 milljónum króna kyrrsettar í tengslum við rannsóknina. Meðlimir sveitarinnar báru þá líka við þekkingaleysi í fjármálum og vísuðu á endurskoðanda sveitarinnar.  Samtals sæta fimm einstaklingar ákæru í málinu; Orri Páll Dýrason, Georg Holm, Kjartan Sveinsson og fyrrnefndir söngvari og endurskoðandi.

Jón Þór er sagður hafa komist hjá að greiða samtals 33,9 milljónir í ýmist tekjuskatt, útsvar og fjármagnstekjuskatt. Bassaleikarinn Georg Holm er ákærður fyrir að vantelja tekjur að fjárhæð 126 milljónum króna og þannig komist hjá 45 milljón króna skattgreiðslu. Trommarinn Orri Páll Dýrason fyrir 46 milljónir og loks var Kjartan Sveinsson hljómborðsleikari fyrir 18,6 milljónir krónur.

„Það verður núna verkefni Héraðssaksóknara að færa sönnur fyrir því að hljómsveitarmeðlimir hafi sjálfir gerst sekir um stórfellda vanrækslu á framtalsskyldu sinni,“ er jafnframt haft eftir Bjarnfreði Ólafssyni í tilkynningunni, sem bætir við að það séu vonbrigði að embætti Héraðssaksóknara hafi tekið ákvörðun um ákærur á hendur þeim.